Fullmekta vegagerð
Vaxandi umferð flutninga- og einkabíla í gegn um Mosfellsbæ er mestmegnis kvöð, hálfgerð konungsskipun, sem rýrir lífsgæði allra íbúa.
Skipulag bæjarins hefur alla tíð miðast við Vesturlandsveginn og Þingvallaveginn, eins og þeir séu óbreytanlegar föstur, en eru ekkert nema mannanna verk, eitthvað úr fortíðinni eins og amboðin í Árbæjarsafni. Nefnd vegstæði eiga fyrst og síðast að þjóna bæjarbúum, en ekki öllum stórflutningum vestur, norður og austur.
Vesturlandsvegurinn var sprengdur niður í klöpp með ærnum tilkostnaði og nú ætla sömu aðilar að gera strandhögg í Mosfellsdal, sumpart með nauðsynlegar úrbætur, en enga dreifingu á umferðarmagni. Ferðamenn eru velkomnir í Mosfellsbæ, en það er óþarfi að fá alla sem fara til Þingvalla tvisvar á sama degi.
Á síðastliðnu ári var þeirri hugmynd hent á loft að leggja veg frá Geithálsi að Kjósarskarði. Markmiðið er að draga úr gegnumstreymisakstri og eiga val á að fara greiðari leið og sleppa við 9 hringtorg, a.m.k. aðra leiðina.
Íbúasamtök Mosfellsdals, Víghóll, kostuðu verkfræðistofu til þess að gera frumdrög að veglagningu samsíða gamla Þingvallaveginum, sem síðan voru send bæjarstjórn. Í og með var hugmyndin að koma samgöngumálum á dagskrá fyrir þessar kosningar, en það hefur ekki tekist. Áhugasvið manna nær ekki út fyrir nema eitt hringtorg í einu. Skyldu frambjóðendur kunna að reikna pí?
Langtímahagsmunir bæjarbúa vega því létt í dægurþrefi stjórnmálanna og reikningurinn fyrir andvaraleysi er þegar kominn í póst til skattgreiðenda. Aukin umferð lækkar fasteignaverð og setur skynsemi á haus. Nýr vegur yfir Mosfellsheiði gæti hins vegar orðið tekjulind, sú eina á Gullna hringnum og skilað sér margfalt til baka.
Framtíðin er nefnilega sú að óþarfa umferð á ekki samleið með blómlegri byggð. Mengun, slysahætta sérílagi á börnum og óbærilegur hávaði er í réttu hlutfalli við umferðarþungann.
Stjórn Víghóls hefur samþykkt að hitta að máli alla frambjóðendur sem hafa áhuga á nýrri nálgun á vanda, sem verður óleysanlegur hnútur innan fárra ára.
vigholl@mosfellsdalur.is
Halldór Þorgeirsson
Melkoti