Gaman að líta yfir farinn veg
Það er sannarlega í mörg horn að líta þegar maður starfar sem byggingafulltrúi því verksviðið er margþætt, það er krefjandi og samræma þarf mörg sjónarmið.
Byggingafulltrúinn Ásbjörn Þorvarðarson tók á móti mér á skrifstofu sinni hjá Mosfellsbæ og gaf mér innsýn í sín daglegu störf. Hann hefur starfað sem fulltrúi hjá bænum síðan 1982 en lætur nú af störfum. Hann segir forréttindi að hafa fengið að lifa og hrærast í uppbyggingu og þróun Mosfellsbæjar sem hefur breyst úr sveit í bæ.
Ásbjörn er fæddur í Súðavík 11. september 1950. Foreldrar hans eru Hallfríður Sveinsdóttir og Þorvarður Hjaltason en þau eru bæði látin. Ásbjörn á þrjú systkini, Hjalta Pál fæddan 1935, Svavar fæddan 1939 og Jónu fædda 1942.
Forréttindi að alast upp fyrir vestan
„Það voru forréttindi að alast upp í Súðavík þar sem náttúran umvafði mann, há fjöll og sjórinn í kring. Það var fagurt mannlíf og í 200 manna litlu samfélagi eru samskipti fólks yfirleitt nánari, meiri nágrannakærleikur og samkennd en í stærri samfélögum.
Leikur og störf fléttuðust saman á jákvæðan hátt og maður lærði að vinna. Það er ljóst að viðhorf til þess hvenær börn eða unglingar tóku að sér alvöru störf mótuðust af þeim tíðaranda sem ríkti, fjárhag, sjálfsbjargarviðleitni og metnaði.”
Alltaf til bakkelsi hjá mömmu
„Ég átti frábæra foreldra sem studdu mig í leik og starfi. Í búrinu heima átti mamma alltaf kleinur og kökur sem gott var að hafa í vasanum og narta í við góð tækifæri.
Í minningunni var oftast sumar og sól, veiði í sjó og vötnum, fjallgöngur, leikir á þorpsgötunni og ýmis konar íþróttakeppnir. Ellefu ára eignaðist ég árabát sem ég réri á og stundaði alls kyns veiðar.
Ég gekk í barna- og unglingaskólann í Súðavík og það var alltaf gaman í skólanum. Smíði, leikfimi og íþróttir voru í uppáhaldi.
Á sumrin vann ég að hluta til í frystihúsinu við beitningar en 14 ára fór ég á humarvertíð á bát frá Ísafirði. Ég var einnig á handfæraveiðum á báti frá Súðavík. Árið 1964 fór ég í heimavistarskóla að Reykjum í Hrútafirði.“
Útskrifaðist úr byggingafræði
„Eftir útskrift frá Reykjum var ég á handfærabát frá Súðavík en í september hélt ég til Reykjavíkur og hóf nám í húsasmíði hjá Einari Ágústssyni byggingameistara og lauk því 1972.
Í byrjun árs 1973 hélt ég svo til Danmerkur í nám í byggingafræði við Byggeteknisk höjskole í Kaupmannahöfn og lauk því námi 1976. Ég starfaði í tvö ár hjá Fin E. Nilsen og Rödovre kommune og í eitt ár hjá Jóni Haraldssyni arkitekt. Á árunum 1979-1982 starfaði ég hjá byggingafulltrúa Reykjavíkur.“
Frúin er frábær kokkur
Eiginkona Ásbjörns er Guðlaug Helga Hálfdánardóttir leikskólakennari og bókari, en þau gengu í hjónaband árið 1972. Þau byggðu sér hús í Bergholti þar sem þau hafa búið síðan. Þau eiga þrjá syni, Darra fæddan 1972, Orra Þór fæddan 1977 og Þórhall fæddan 1980.
„Sameiginleg áhugamál okkar hjóna eru að njóta samveru með fjölskyldu og vinum, stunda útivist og borða góðan mat, enda er frúin frábær kokkur,” segir Ásbjörn og glottir. Mín aðaláhugamál hafa verið útivist, veiði, fjallgöngur, hjólreiðar og badminton.“
Starfið áhugavert og krefjandi
Árið 1982 hóf Ásbjörn störf sem byggingafulltrúi hjá Mosfellsbæ og hefur starfað við það óslitið síðan. Þegar hann byrjaði var íbúafjöldinn rúmlega 2.000 og skrifstofur Mosfellssveitar voru í Hlégarði. Sveitin breyttist í bæ árið 1987 og er íbúafjöldinn nú kominn yfir 10.000 manns og skrifstofur Mosfellsbæjar eru staðsettar í Kjarna.
„Starfið hefur verið áhugavert og krefjandi og það er gaman að líta yfir farinn veg og sjá þær miklu breytingar sem orðið hafa á byggðinni og mannlífinu. Það eru forréttindi að hafa fengið að lifa og hrærast í uppbyggingu og þróun Mosfellsbæjar sem hefur breyst á skömmum tíma. Hlutfallsleg fjölgun íbúa hér hefur verið með því allra mesta á landsvísu á liðnum árum.“
Kostur að búa nálægt vinnustað sínum
„Þegar ég tók til starfa voru starfmenn um níu að meðtöldum sveitarstjóranum sem þá var, Páll Guðjónsson, en hann hóf störf um svipað leyti og ég og tók við af Bjarna Snæbirni Jónssyni.
Á þessum tíma var ekkert mötuneyti á staðnum og þá var nú mikill kostur að búa nálægt vinnustaðnum. Þeir sem bjuggu utanbæjar tóku með sér nesti en við sem bjuggum í grenndinni fórum heim í mat rétt eins og tíðkast í smábæjum og þorpi eins og ég ólst upp í.“
Mikilvægt að soga í sig þekkingu
„Starfssvið mitt hefur breyst mikið í gegnum tíðina og verkefnin eru fjölbreytt. Starf mitt spannaði bæði úti- og innivinnu í tengslum við skipulags- og byggingamál. Í dag felst starfið að mestu leyti í afgreiðslustörfum á skrifstofunni svo sem yfirferð og samþykkt hönnunargagna, svörun fyrirspurna í síma, rafrænt og á staðnum
Áður fyrr var alfarið um að ræða vistun skjala á pappír og engin rafræn yfirsýn eins og nú og var því mikilvægast að soga í sig sem mest af staðbundinni þekkingu og yfirsýn sem eldri höfðingjar eins og Jón Guðmundsson á Reykjum miðluðu gjarnan.“
Samskiptahópurinn er stór
„Verksvið byggingafulltrúa er margþætt og tengist náið skipulagsmálum sveitarfélagsins, samskiptum og upplýsingagjöf til bæjarbúa.
Byggingafulltrúi sér um afgreiðslu byggingaleyfa og byggingaframkvæmda og er þar af leiðandi í nánum samskiptum við hönnuði, iðnmeistara, byggingastjóra og marga húseigendur auk opinbera aðila þannig að samskiptahópurinn er stór.
Viðskiptavinir embættisins eru margir og sumir telja sig að sjálfsögðu misrétti beitta við afgreiðslur mála þrátt fyrir að farið sé í öllu eftir ákvæðum gildandi skipulags, lögum og reglugerðum en yfirgnæfandi meirihluti viðskiptavina sýnir þakklæti.“
Áhugamálin fá meira pláss
„Þegar ég horfi til baka þá hefur vinnan í gegnum tíðina tekið of mikið pláss frá fjölskyldulífinu en nú verður bætt úr því þar sem maður fer að hafa meiri tíma en ég læt af störfum 27. apríl.“
Aðspurður hvað taki við? „Við hjónin ætlum núna í maí í gönguferð á Tenerife og svo ætlum við að dvelja tvo mánuði á Spáni í haust.
Sumarið er heilagt okkur heima við á Íslandi og ég hlakka til að fá „laaaaangt“ sumarfrí með fjölskyldunni.
Það eru engin skipulögð áform hjá mér að taka að mér launuð störf en áhugamálin fá meira pláss svo það eru bara skemmtilegir og spennandi tímar fram undan.“
Mosfellingurinn 26. apríl 2018
Myndir og texti: Ruth Örnólfs