Ársreikningur og forgangsröðun

Anna Sigríður Guðnadóttir

Anna Sigríður Guðnadóttir

Ársreikningur síðasta árs var samþykktur í bæjarstjórn þann 4. apríl síðastliðinn. Niðurstaða hans var góð og allra lykiltölur jákvæðar. Rekstrarniðurstaðan var um 400 milljónum hærri en fjárhagsáætlun ársins með viðaukum gerði ráð fyrir.
Fjárhagsáætlun sveitarfélagsins er sá rammi sem bæjarstjórn ákveður að setja utan um starfsemi bæjarins. Fjárhagsáætlun er ekki til viðmiðunar í rekstri heldur skal starfsemi bæjarins rekin innan þess ramma Ef einhverjar þær aðstæður koma upp sem valda auknum útgjöldum er lögboðið að gera s.k. viðauka við fjárhagsáætlun sem bæjarstjórn þarf að samþykkja. Ársreikningur bæjarins sýnir hvernig til tókst að halda rekstri innan þessa ramma.

Hærra útsvar og lægri vextir
Ágæt rekstrarniðurstaða Mosfellsbæjar árið 2017 skýrist ekki af rekstrarsnilld sjálfstæðismanna og félaga þeirra í Vinstri grænum. Hún skýrist af hagstæðum ytri aðstæðum í rekstrarumhverfi sveitarfélaga í landinu. Skýringin felst aðallega í tveimur atriðum. Annars vegar í geysilegri íbúafjölgun í bænum á árinu, eða um 8%, og hins vegar af umtalsvert lægri fjármagnsgjöldum en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir.
Íbúafjölgunin leiðir eðlilega af sér hærri útsvarstekjur. Fjármagnsgjöldin eru um 50% lægri en áætlað var, eða 326 milljónir í stað áætlaðra 652 milljóna. Meginástæða þessara lægri fjármagnsgjalda er lægri verðbólga en reiknað var með í fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 2017. Þess má geta að við umræðu um fjárhagsáætlun ársins 2017 bentu bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar á að sú hækkun verðlags, verðbólguspá, sem lögð var til grundvallar áætluninni væri talsvert hærri en þjóðhagsspá gerði ráð fyrir á þeim tíma.

Ólafur Ingi Óskarsson

Ólafur Ingi Óskarsson

Forgangsröðun
Bærinn okkar er að ganga í gegnum mikið og hratt vaxtarskeið, íbúum fjölgaði um 8% árið 2017 eins og áður segir og gert er ráð fyrir að íbúum fjölgi um 5-6% á yfirstandandi ári. Aðalhlutverk sveitarfélagsins er að veita íbúum þjónustu og til þess nýtum við útsvarið. Sú fjölgun íbúa sem við verðum vitni að þessi árin, sem og aðhald undanfarinna ára í rekstri og viðhaldi, hlýtur að kalla á innspýtingu í þjónustu bæjarins.
Það þarf að efla skólana, leik- og grunnskóla, félagsþjónustan þarf sitt, tómstundastarf í vaxandi heilsueflandi samfélagi þarf stuðning svo ekki sé minnst á fráveitumál, viðhald gatna og mannvirkja svo eitthvað sé nefnt af þeirri þjónustustarfsemi og innviðum sem bærinn rekur fyrir íbúana. Sú aukna þörf fyrir þjónustu og uppbyggingu innviða sem slík íbúafjölgun kallar á hlýtur að koma í ljós í fjárhagsáætlunum næstu ára. Það hvernig fjármunum bæjarsjóðs verður forgangsraðað mun byggjast á því hvaða stjórnmálaflokkar mynda meirihluta bæjarstjórnar Mosfellsbæjar á næsta kjörtímabili.

Anna Sigríður Guðnadóttir og Ólafur Ingi Óskarsson,
bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar.