Stærri rass, minni buxur
– Dr. Saxi
Mosfellsbær stækkar, það fer víst ekki fram hjá neinum…. nema kannski þeim sem nota þurfa heilbrigðisþjónustu í bænum. Á sl. 12 árum hefur nefnilega allt staðið þar í stað og jafnvel verið í bakkgír á meðan að íbúafjöldinn hefur farið úr um 7.000 í rúm 10.000.
Einhver hefði ætlað undir forystu Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ, á Alþingi og með þáverandi heilbrigðisráðherra hefði skilað bæjarfélaginu einhverjum umbótum í heilbrigðismálum en nei, ónei! Dr. Saxi mætti og fengum við því hressilegan niðurskurð um einar 14 klukkustundir á sólarhring.
Utan þessa „ríkulega“ opnunartíma er sjúkum í Mosfellsbæ bent á Smáratorg 1… í Kópavogi.
Á ekki líka að vera gott að búa í Mosfellsbæ?
– 10-holu golf.
Myndu menn sætta sig við 10-holu völl í stað 18-holu? Nei?
Af hverju halda menn þá að 55% fjölnota fótboltahús nægi? Slíkt er jafn langt úti á túni og að ræða um að 220 m hlaupabraut nægi. 55 metra hlaup yrði reyndar óneitanlega auðveldara en 100 metra.
– Ljótur leikur
Íbúar sveitarfélaganna, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, hafa undanfarin ár verið nauðugir/viljugir þátttakendur í undarlegum leik sem hækkað hefur hluta lóðar í byggingarverði úr 6% í 25%.
Þetta má vera að sé þægilegt tekjuöflunarmódel fyrir sveit og borg en þetta gerir íbúum á landsvísu örðugt fyrir enda veldur þessi starfsemi verðbólgu sem svo rýrir kjör fólks.
– Dvel ég í draumahöll
Merkileg er sú þróun á að horfa að hundruð mosfellskra íbúða skili sér á markað á ári hverju. Ennþá merkilegra er kannski að öll atvinnuuppbygging virðist vera í öðrum bæjarfélögum og ýtir slíkt undir kröfur um góðar samgöngur.
– Fór stera-strætó af sporinu?
Mikinn fóru Sjálfstæðismenn í umræðunni um samgöngur og þá sér í lagi borgarlínu…. þ.e.a.s. þar til að fyrstu plön birtust í Morgunblaðinu ekki svo alls fyrir löngu. Mosfellsbær virðist hafa fallið algjörlega út af sakramentinu enda ekki gert ráð fyrri tengingu til okkar fyrr en eftir 2030.
– Skólaskylda í útihúsum
Mennt er máttur en viðhorf til skólanna virðist hér í bæ vera helst til máttleysislegt. Dýrustu skólabyggingar landsins eru undarlega hannaðar að því leyti að ekki er gert ráð fyrir að þær geti stækkað… nokkur tímann. Ný hverfi og stækkandi enda þannig önnum og árum saman í útihúsum.
– ABCD
Síðustu fréttir virðast gefa okkur til kynna að útboðsmál og útfyllingar slíkra flækist ákaflega fyrir sitjandi meirihluta. Við bíðum „spennt“ eftir næstu uppákomu.
Óskar Guðmundsson
formaður Framsóknarfélags Mosfellsbæjar