Hvatning til Mosfellinga – sem og annarra landsmanna
Ég hefi lengi haft mikla ánægju af að ganga mér til heilsubótar og skemmtunar. Áður fyrr meðan ég var yngri og hraustari kleif ég fjöll, hjólaði jafnvel úr Mosfellsbæ að Esjurótum og var allan guðslangan daginn að ganga upp og um fjallið. Oft kom ég dauðþreyttur heim og það var auðvitað markmiðið.
Í dag verð ég að eftirláta öðrum fjallið, einkum þeim sem mér eru yngri og enn hafa fullu heilsu. En Úlfarsfellið og mosfellsku fjöllin get ég enn fengist við. Oft á ég leið gegnum skóginn í Hamrahlíðinni og stundum ásana austur af Lágafelli. Nú er að vaxa þar upp mjög góður og fagur skógur sem veitir okkur bæði skjól og mikinn unað. Fuglalífið er sérstakur kapítuli út af fyrir sig og er margt sem gleður þá sem unna fuglum og kunna að njóta þeirra. Skógarfuglunum hefur fjölgað gríðarlega og er það vel.
Skógurinn framleiðir mikið af ýmsum afurðum. Í lundum trjánna má víða finna sveppi af ýmsum tegundum, sumum ætum en öðrum ekki. Jólatré hafa verið höggvin í um þrjá áratugi í Hamrahlíð og sjálfsagt mætti auk þess fá umtalsverðan eldivið af grisjunarvið. Mosfellsku skógarnir eru komnir á það stig að þá þarf að grisja og eru umtalverð verðmæti fólgin í skóginum.
Ein „skógarafurðin“ eru könglarnir af barrtrjánum. Þeim má safna meðan þeir eru enn lokaðir og ná fræjunum úr þeim þá þeir opna sig og sá áfram annað hvort í bakka og potta eða í beð og jafnvel út í sjálfa náttúruna. Stafafuran er t.d. ein „ágengasta“ tegund sem þekkist hérlendis og má víða sjá sjálfsáin barrtré út um allan Hamrahlíðarskóginn ef vel er að gáð. Þannig eru öll þau tré sem nú eru að vaxa og dafna meðfram Vesturlandsvegi og hitaveitustokkinum meðfram Hamrahlíðarskóginum. Mjög líklegt er að þau séu „dauðadæmd“ þegar þarf að endurnýja eða gera við þær lagnir sem þar eru undir, rafmagnslagnir og vatnslagnir (kalt vatn).
Undanfarin ár hefi ég safnað í góðum fræárum birkifræi að hausti. Stundum verð ég of seinn til eftir að Kári hefur færst í aukana í vetrarbyrjun og feykt þeim út í buskann. Lokuðum könglum af barrtrjám hefi ég einnig safnað og gjarnan dreift út í náttúruna eins og þeir koma. Í raun er ég með þessu að taka að mér að vera n.k. „handlangari“ náttúrunnar, miðlunarstarf með því að koma fræi og könglum á staði þar sem trjáplönturnar geti náð að festa rætur, dafnað og vaxið í íslenskri náttúru.
Ísland er mjög fábreytt að tegundatali hvað jurtir varðar. Hér vaxa rétt innan við 500 villtar tegundir en til samanburðar þá er tegundafjöldinn um fjórfaldur á sambærilegri breiddagráðu í Noregi (Þrándheimi). Auðvitað er ljóst að fræ af barrtrjám eiga ekki greiða leið yfir Atlantshaf með fuglum eða vindum og þaðan af síður með hafstraumum. En Ísland er í miðju barrskógabeltinu og hér þrífast mjög margar tegundir barrtrjáa mjög vel eins og við getum víða séð.
Á heilli öld hefur okkur tekist að færa skóglendi landsins út í það að um 1,5% Íslands er um þessar mundir þakið skógi. Ísland er þess vegna eitt skógfátækasta land ekki aðeins Evrópu heldur aðeins alls heimsins. Við þurfum að bæta verulega úr enda skógurinn mannfólkinu sem og náttúrunni mjög mikilvægur.
Söfnum birkifræi að hausti og barrkönglum að vetri. Og dreifum þessu sem víðast á óbyggt land. Við gætum með þessu móti endurheimt birkiskóginn sem einu sinni óx á Mosfellsheiði og gert jafnvel betur.
Guðjón Jensson
Leiðsögumaður og náttúruunnandi