Framkvæmdir hafnar í Bjarkarholti
Á reitunum á milli Framhaldsskóla Mosfellsbæjar og Krónunnar eru hafnar framkvæmdir við byggingu verslunar- og íbúðarhúsnæðis.
Markmið gildandi deiliskipulags er að þétta og efla miðbæ Mosfellsbæjar. Einnig að móta skjólsæla, þétta og sólríka íbúabyggð auk verslunar og þjónustu og styrkja þannig götumyndina. Svæðið er í hjarta bæjarins og því lögð rík áhersla á metnað og vandaða hönnun við gerð og frágang mannvirkja á svæðinu.
Allt að 105 íbúðir á milli FMOS og Krónunnar
Byggingarnar verða þriggja til fimm hæða háar og verslanir verða á fyrstu hæð á þeim reit sem er næstur Krónunni. Aðrar byggingar á svæðinu verða eingöngu íbúðarhúsnæði og er gert ráð fyrir að unnt verði að byggja allt að 105 íbúðir á þessum þremur reitum í Bjarkarholti.
Framkvæmdir munu standa yfir næstu tvö ár og stefnt verður að því að þeim verði að mestu lokið í árslok 2019.
Samgöngustígurinn meðfram Bjarkarholti mun á meðan framkvæmdir standa sem hæst verða nýttur fyrir bæði gangandi og hjólandi umferð en hann var áður sérgreindur eftir samgöngumáta.
Á næstunni er fyrirhuguð vinna við lagnir í götunni og má því gera ráð fyrir röskun á umferð á því tímabili.