Helga gefur kost á sér í 3. sæti
Ágætu Mosfellingar.
Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ fyrir bæjarstjórnarkosningarnar nú í vor. Ég hef mikinn áhuga á málefnum bæjarins almennt, verkefnum bæjarins sem og þeirri þjónustu sem bærinn veitir íbúum sínum og er ég tilbúin að leggja mitt af mörkum næstu árin til að bæta og efla þjónustu bæjarins í þágu íbúanna.
Í prófkjörinu sem haldið verður laugardaginn 10. febrúar nk. sækist ég eftir 3. sæti á lista Sjálfstæðismanna.
Mínar áherslur er tengjast verkefnum og þjónustu bæjarins eru skýrar en sjálfsögðu verða þær að samrýmast stefnu þeirri sem mótuð er og verður gildandi fyrir Mosfellsbæ sem bæjarfélag.
Áframhaldandi ábyrg fjármálastjórn er forsenda góðra verka í bæjarfélaginu sem og skilvirk og gagnsæ stjórnsýsla. Samskipti bæjarbúa við bæjaryfirvöld eiga að mínu mati að byggja á einföldu en öruggu fyrirkomulagi.
Í ört vaxandi bæjarfélagi er að mörgu að hyggja í skipulagsmálum. Samgöngumál í bæjarfélaginu þarf að skoða og jafnvel endurskipuleggja, og samhliða því þarf meðal annars að byggja upp miðbæjarkjarna með góðri þjónustu bæjarbúum í hag.
Í dag tekur það okkur Mosfellinga oft ansi langan tíma að sækja vinnu og þjónustu til nágrannnasveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Þessu þurfum við að breyta og er orðið tímabært að skoða þá möguleika sem í boði eru til að stytta ferðatíma okkar meðal annars til og frá vinnu.
Skólamál skipta okkur öll miklu máli og er mikilvægt að umgjörð skólanna sé til fyrirmyndar. Hér eru það sjálfir skólarnir og aðstaða sú sem við bjóðum starfsfólki þess og nemendum sem við þurfum að huga vel að. Þar er okkur öllum mikilvægt að aðstaðan sé í góðu lagi og að við bjóðum upp á þann aðbúnað og aðstöðu sem þarf til í skólunum.
Foreldrar með ung börn eiga að hafa kost á því að börn þeirra geti farið á ungbarnaleikskóla. Þetta er að mínu mati sjálfsagður hlutur í dag þar sem samfélag okkar hefur breyst mikið og mikilvægt að þessi valkostur sé í boði.
Ég hef verið svo heppin að fá að taka þátt í starfi Aftureldingar og síðan Ungmennafélags Íslands í nokkur ár, en þar hef ég kynnst æskulýðs- og íþróttahreyfingunni vel. Íþrótta- og félagsstarf eru góðar forvarnir fyrir alla bæjarbúa óháð aldri.
Við eigum að mínu mati sem sveitarfélag að efla og auka þátttöku bæjarbúa í félags- og íþróttastarfi. Mosfellsbær býður upp á góða aðstöðu og yndislegt umhverfi, en alltaf má gera betur og efla þarf bæjarfélagið sem Heilsueflandi samfélag.
Verkefnin eru mörg og fjölbreytt og það er margt sem við getum gert og lagt áherslu á. Ég hef einungis nefnt hér lítinn hluta þeirra verkefna sem eru bæjarins. Umhverfismál, menningarmál, málefni eldri borgara, félagsmál, atvinnumál eru sem og önnur verkefni einnig mikilvæg.
Málefni Mosfellinga eru okkar mál og það er okkar að huga vel að bæjarbúum óháð aldri þeirra, kyni, efnahag, búsetu, félagslegri stöðu eða áhuga.
Helga Jóhannesdóttir