Undirbúningur hafinn fyrir þorrablót UMFA
Þorrablót Aftureldingar verður haldið í íþróttahúsinu að Varmá 20. janúar. Miðasala og borðaúthlutun fer fram föstudaginn 12. janúar á Hvíta Riddaranum.
Líkt og áður er eingöngu hægt að taka frá sæti gegn keyptum miða. Mikil stemning hefur myndast í aðdraganda blótsins og uppselt hefur verið undanfarin ár.
Þorrablótið á sér langa sögu í menningu bæjarins, fyrsta blótið sem haldið var í þessari mynd var árið 2008 og er því 10 ára afmælisblót í ár. Þetta er stærsta fjáröflunarsamkoma Aftureldingar sem haldin er en það eru handknattleiksdeildin og knattspyrnudeildin sem halda blótið ár hvert.
Þorramatur og lambalæri úr Kjötbúðinni
Að vanda sér Geiri í Kjötbúðinni um matinn og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi því auk hins hefðbundna þorramatar verður á boðstólnum lambalæri og með því.
Hin þjóðkunni Gísli Einarsson er veislustjóri og Salka Sól, Magni og Eyþór Ingi munu halda uppi stuðinu á dansgólfinu fram eftir nóttu ásamt hljómsveit Mosfellingsins Tomma Tomm.
Borðaskreytingar munu fara fram kl. 12-13:30 á blótsdegi. Mikill metnaður hefur verið í borðaskreytingum hjá blótsgestum og er það orðinn stór partur af þorrablótsundirbúningnum. Veitt eru verðlaun fyrir skreytingarnar, þar sem óháð dómnefnd dæmir borðin og gefur stig.
Allar upplýsingar um blótið má finna á Facebook-síðu Þorrablóts Aftureldingar.