Dreymir Mos-Sjalla Dag(s)drauma?

óskarguðmundsson

Þegar líður að kosningum verður eitt aðal umræðuefni kaffistofa og annarra starfsmannasvæða hin alræmda forgangsröðun.
Almennt er talið mikilvægast að menntun, tómstundir og laun gangi fyrir en nú virðist þó svo vera að Mosfellsbæ sé mikilvægast að taka þátt í samgönguverkefni sem enginn getur með neinni vissu sagt fyrir hvað muni kosta. Þetta er svokölluð Borgar-lína sem margir fremur kalla Dag(s)drauma.
Falleg lausreimuð plön ganga út á 1,1 til 1,15 milljarða á km og þannig 63 til 70 ma. Þrátt fyrir það kemur fram í skýrslu Reykjavíkurborgar og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) „Borgarlína, hlutverk, hvað, hvar hvernig“ að fyrstu 18 km muni kosta 30-65 ma. (bls. 30 í skýrslunni). Hinir 39 km hljóta þá að vera nánast fríir, jafnvel borga með sér.
Raunhæfara væri að taka meðaltal af útgildum fyrstu 18 km og ætla þá að hver km kosti 2,64 ma. og 57 km verkefnið þá um 150,4 ma.
Þar með er þó ekki öll sagan sögð.
„Planið“ gengur nefnilega út á að hækka notkun almenningssamgangna úr 4% í 12% auk þess að minnka bílaumferð um 75>58%. Slíkt er vart raunhæft m.v. að notkun almenningssamgangna hefur aðeins einu sinni skriðið yfir 4% og það var á fyrstu mánuðunum eftir Hrun sem notkunin slefaði í 5%.
Hvert 1% sem upp á 12% notkun vantar kostar um hálfan milljarð á ári í „töpuð fargjöld“ og þar af Mosfellsbæ allt að 20 milljónir á ári á hvert 1% sem geta verið allt að 6.
Til 2040, áætlaðra verkloka, myndi slíkt teljast til 66 milljarða á gengi dagsins í dag hvar alls gætu fallið á Mosfellsbæ 2,7 milljarðar.
150 milljarða framkvæmd, 25 ma. frá ríkinu, 66 milljarða reikningsskekkja, 4,1% hlutur Mosfellsbæjar (hlutfall af rekstri Strætó).
125 + 66 = 191 x 0,041 = 7,83 milljarðar.
Það allra skrýtnasta er þó ekki nefnt. Forsendur Borgarlínu eru nefnilega að horfið sé frá nokkrum framkvæmdum mislægra gatnamóta. Þar m.a. er horfið frá mislægum gatnamótum Vesturlandsvegar og Korpúlfsstaðabrautar. Nákvæmlega þau gatnamót eru ein af forsendunum fyrir því að Mosfellsbær geti tengst Borgarlínu beint.
Einu gleyma allir aðilar. Það er stefna Reykjavíkurborgar að eyðileggja flugvöllinn í Vatnsmýri. Þarf þá Borgarlína ekki að ná a.m.k. í vallarstæði nýrra plana í Hvassahrauni? Ef svo er hækkar kostnaðurinn um 10% hið minnsta.
Hluti Mosfellsbæjar þá 8,6 milljarðar. 8 þúsund og sex hundruð milljónir. Um 850 þúsund á hvern einstakling í bænum. 3,44 milljónir á vísitölufjölskylduna.
Helmingur fjárútláta er 2018-2022 eða allt að 4,3 milljarðar. Slíkt er um 20% ætlaðra útsvars- og fasteignaskatttekna kjörtímabilið 2018-2022. Að láni á 5% vöxtum er afborgunin 215 milljónir á ári.
Það er því til lítils að ætla að prumpa út milljónum í kosningaloforð 2018 um „lækkanir“ ef að skuldir bæjarins hækka um meira um meira en sem þeim nemur vegna dag(s)draumaverkefna.

Óskar Guðmundsson
Greinarhöfundur er formaður Framsóknarfélags Mosfellsbæjar.