Frístundaávísanir hækka og kosið um íþróttafólk

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Rúnar Bragi Guðlaugsson

Í Mosfellsbæ býr mikið af hæfileikaríku fólki sem stundar sínar íþróttir og tómstundir af fullum krafti. Sumir með það að markmiði að skara fram úr og ná langt, og aðrir jafnvel bara til að vera með og hafa gaman af.

Frístundaávísun hækkar um 54%
Mosfellsbær styrkir frístundaiðkun allra barna og unglinga á aldrinum 6-18 ára með lögheimili í Mosfellsbæ með fjárframlagi á móti kostnaði við frístundaiðkun. Markmið þessarar niðurgreiðslu er að hvetja börn og unglinga til að finna sér frístund sem hentar hverjum og einum.
Við afgreiðslu fjárhagsáætlunar í lok síðasta árs þá samþykkti bæjarstjórn Mosfellsbæjar að hækka frístundaávísun í kr. 50.000 á barn eða um 54% frá því sem áður var. Nú fá allir kr. 50.000 og fellur þá afslátturinn út sem áður var gefin fyrir annað og þriðja barn o.s.frv.

Markmiðið að nýtingin verði 100%
Við í íþrótta- og tómstundanefnd settum okkur það að markmiði að allir sem eiga rétt á, skyldu nýta sér frístundaávísunina og helst vildum við komast í 100% nýtingu á frístundaávísuninni. Í gegnum árin höfum við verið með á bilinu 70–80% nýtingu.
Einhverra hluta vegna er eins og fólk gleymi að sækja um eða sumir sem halda að ávísunin nýtist ekki af því að íþróttin eða tómstundin er stunduð í öðru bæjarfélagi. Ég vil hvetja alla foreldra barna á aldrinum 6-18 ára að kynna sér betur hvernig hægt er að nýta sér frístundaávísunina.
Styrkurinn er afhentur í gegnum íbúagátt Mosfellsbæjar og geta foreldrar og forráðamenn því með rafrænum hætti greitt fyrir frístundaiðkun barna sinna. Tímabil styrkveitingar hefst 15. ágúst ár hvert til 31. maí árið eftir.

Íþróttakarl og -kona Mosfellsbæjar
Íþróttakarl og íþróttakona Mosfellsbæjar verða gerð kunn fimmtudaginn 18. janúar í íþróttahúsinu að Varmá, og hefst athöfnin kl. 19:00. Við sama tilefni verða ungum íþróttamönnum bæjarins sem orðið hafa Íslands-, deildar-, bikar- eða landsmótsmeistarar 2017 veittar viðurkenningar ásamt þeim sem hafa tekið þátt í og/eða æft með landsliði á liðnu ári.
Hvet ég alla til að mæta og heiðra okkar frábæra íþróttafólk með nærveru sinni nk. fimmtudag, en það er okkar íþróttafólki mikill heiður og áskorun að fá viðurkenningar sem þessar, og um leið ein besta forvörnin. Einnig vil ég hvetja alla til að taka þátt í kosningunni sem er á íbúagáttinni á www.mos.is

Rúnar Bragi Guðlaugsson
Formaður Íþrótta- og tómstunda­nefndar Mosfellsbæjar