Handstaðan

handstaða

Um síðustu helgi fórum við æfingahópurinn á Strandir í æfingaferð. Nánar tiltekið á Hótel Laugarhól í Bjarnarfirði. Staðurinn er magnaður og hópurinn samsettur af lifandi og skemmtilegum einstaklingum. Ferðin var frábær og allir spenntir fyrir að fara aftur á Strandir haustið 2018. Helgin var af stútfull af æfingum, leikjum og þrautum. Allt á afslöppuðum nótum. Við krýndum Strandameistara í ketilbjöllukasti og bóndagöngu. Kepptum líka í drumbakasti, boðhlaupi, dýfingum, snapchati og mörgu öðru.

Mér finnst gaman að keppa, sérstaklega þegar ég vinn. Það er einhvern veginn skemmtilegra að vinna en að vinna ekki. Stundum er samt bara gaman að vera með, þannig séð. Mitt lið, appelsínugula liðið, stóð sig mjög vel í snapchat keppninni, enda með nokkra sérfræðinga í þeirri íþrótt innan liðsins. Við unnum líka drumbahlaupið sem lið mjög örugglega. Aðrar keppnir tókum við ekki eins alvarlega og unnum þær þar af leiðandi ekki.

Af öllum þeim keppnum og leikjum sem ég tók þátt í fannst mér erfiðast að tapa í Asna fyrir trommuleikaranum í Doors frá Laugarvatni. Mér fannst ég vera með þetta. Var bara með A þegar hann var kominn með Asni og vantaði bara tvo punkta. En auðveldu skotin mín geiguðu á meðan trommarinn mýktist með hverju skotinu og raðaði sínum niður án fyrirhafnar. Ég reyndi að láta á engu bera og óskaði honum auðvitað til hamingju með sigurinn en átti mjög erfitt inni mér.

Mér finnst reyndar gefandi að sjá fólk í kringum mig blómstra og ná árangri þannig að ég var ekki lengi tapsár. Einn af skemmtilegustu sigrum helgarinnar var síðan þegar ísfirska mærin okkar náði sinni fyrstu handstöðu. Eitthvað sem hana hefur lengi langað til að geta og hefur stefnt að lengi. Markmið sem náðist. Það var sigur sem skipti máli og mér fannst gaman að fá að upplifa það með henni. Njótum lífsins!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 19. október 2017