Arnar Hallsson ráðinn þjálfari meistaraflokks
Arnar Hallsson hefur verið ráðinn þjálfari meistaraflokks karla í knattspyrnu. Liðið leikur í 2. deild og hefur gert síðustu ár. Afturelding endaði í 4. sæti í sumar undir stjórn Úlfs Arnars Jökulssonar. Síðast fór liðið upp um deild árið 2008.
„Ég er búinn að hafa augastað á þessu félagi í talsverðan tíma,“ segir Arnar Hallsson sem hefur unnið sem þjálfari yngri flokka síðustu ár. „Mig hefur langað til að þjálfa meistaraflokk hjá félagi sem hefði rætur og efnivið til að vinna úr. Það freistaði mín þegar ég sóttist eftir þessari stöðu.
Sjálfur var ég leikmaður hjá Víkingi og ÍR þangað til ég fótbrotnaði og fór í langa pásu. Ég byrjaði að þjálfa 2010 sem aðstoðarþjálfari hjá ÍR. Svo var ég yfirþjálfari hjá Víkingi og síðustu þrjú ár hef ég verið hjá HK.“
Í Pepsi-deild eftir fjögur ár
„Þetta verður frumraun mín sem meistaraflokksþjálfari og þá má kannski segja að sem betur hafi tækifærið ekki komið fyrr.
Ég er búinn að vera undirbúa mig síðustu 6 ár, læra fullt af hlutum og gera aragrúa af mistökum. Þannig að ég held að þetta komi á hárréttum tíma.
Ég er tilbúinn að gefa mikið og hjálpa þessum strákum að verða betri í fótbolta. Niðurstaðan verður sú að við munum fara upp um deild og gera okkur gjaldgenga í næstu deild fyrir ofan. Ég vil fara upp í Pepsi-deild eftir 4 ár og held ég að efniviðurinn sé til staðar hjá okkur.
Nú er bara verkefni fyrir alla Mosfellinga að aðstoða okkur við að skapa umgjörð sem verður skemmtileg og glæsileg.
Okkar í hópnum bíður svo að leggja hart að okkur og skemmta fólki með góðum fótbolta og góðum úrslitum. Svo er mikilvægt að aðstöðumál hér í Mosfellsbæ fylgi í kjölfarið, þau þarf að bæta.
Mikilvægustu leikmennirnir eru þeir sem eru til staðar hjá félaginu. Svo er hægt að bæta í hópinn einni til tveimur skrautfjöðrum, eins og flestir þjálfarar vilja. Bæta þá við leikmönnum sem eru nógu góðir fyrir næstu deild fyrir ofan.“
Ætlum okkur stóra hluti
„Ég þekki Arnar frá því ég spilaði með honum í ÍR,“ segir Ásbjörn Jónsson formaður meistaraflokksráðs. „Hann er besti maðurinn til að koma mönnum í réttan gír fyrir leiki. Alla vega sem leikmaður og ég efast ekki um að það verði eins sem þjálfari.
Svo hef ég séð til hans sem þjálfara og liðin hans spila yfirburðabolta. Nafnið hans kom strax upp í hugann á mér þegar leitin að þjálfara hófst.
Án þess að gera nokkuð lítið úr fyrri þjálfurum erum við í talsvert betri málum í dag í rekstri klúbbsins og ætlum okkur stóra hluti.
Ég er sammála Arnari að við ætlum okkur upp um deild á næsta ári.“