Íþróttamiðstöð GM tekin í notkun – fær nafnið Klettur
Golfklúbbur Mosfellsbæjar hefur nú opnað dyrnar á nýrri íþróttamiðstöð, Kletti, miðsvæðis á Hlíðavelli.
Öll efri hæðin hefur verið tekin í notkun þar sem fyrsta flokks aðstaða er til að þjónusta kylfinga og aðra gesti. Um er að ræða veitingaaðstöðu, hátíðarsal, skrifstofur, sölu golfvara og móttöku.
„Þetta er frábær aðstaða með fallegasta málverki í heimi sem þú sérð út um gluggann hérna. Ég held að það sé enginn staður á Íslandi sem býður upp á viðlíka útsýni,“ segir Kári Tryggvason formaður golfklúbbsins.
Efri hæð hússins er 650 fm en húsið alls er 1.200 fm. Á neðri hæðinni er gert ráð fyrir æfingaaðstöðu fyrir börn og unglinga.
„Við stefnum á það, með velvilja drottins, að við náum að koma æfingaaðstöðunni í gagnið í vetur.“
Gamli skálinn víkur fyrir íbúabyggð
Gunnar Ingi Björnsson framkvæmdastjóri GM tekur í sama streng og sér fram á bjarta tíma fyrir unga og efnilega afrekskylfinga. „Okkar kylfingar hafa verið að æfa í nærliggjandi sveitarfélögum og í vélaskemmunni okkar yfir vetrartímann. Aðstaða sem hefur verið langt undir því sem talist getur eðlilegt.“
Í sumar verður notast við æfingaaðstöðu við gamla skálann í Súluhöfða en gert er ráð fyrir því að Mosfellsbær taki við því svæði í haust og reisi í framhaldinu íbúðagötu.
„Þar hefur golfklúbburinn verið í bráðabyrgðaraðstöðu í 30 ár. Nú erum við að skipuleggja okkur og reyna að koma upp allri aðstöðu hér við nýja húsið og hefja frágang á lóðinni,“ segir Gunnar Ingi.
Opið fyrir alla Mosfellinga
Opnuð hefur verið glæsileg veitingaaðstaða í húsinu sem opin verður frá morgni til kvölds í sumar. Þá verður hátíðarsalurinn og ýmis þjónusta í boði allan ársins hring.
„Staðurinn er hugsaður fyrir alla Mosfellinga og sjáum við fyrir okkur ýmsa möguleika í okkar heilsueflandi samfélagi. Verið er að tengja okkur við stígakerfi Mosfellsbæjar enda er hér stunduð fjölbreytt útivist. Fólk í göngutúrum, á hjóli, hestum, skíðum og öðrum fararskjótum mun njóta góðs af þessari starfsemi í húsinu sem verður sannkölluð útivistarmiðstöð.“
Margar tillögur að nafni
Efnt var til nafnasamkeppni og bárust hátt í 300 tillögur. Klettur varð fyrir valinu en kletturinn sem húsið rís undir heitir Hrossaskjólsklettur. Þónokkrir stungu upp á nafninu og hefur Magnús Gunnarsson verið dreginn út og hlýtur árskort á völlinn.
„Þetta er niðurstaðan og ég held að húsið muni bera nafnið vel. Við erum að horfa til framtíðar og skapa klúbbnum sérstöðu og Klettur er sannarlega góður grunnur til að byggja á til framtíðar,“ segir Gunnar Ingi.
„Við höfum lagt mikla áherslu á að hér rísi hús í endanlegri mynd og að það falli vel inn í umhverfið. Hús sem mun sóma þessari starfsemi til framtíðar.“