Svava Ýr hlýtur Gulrótina
Heilsudagurinn í Mosfellsbæ var haldinn fimmtudaginn 1. júní. Dagurinn hófst snemma með hressandi morgungöngu á Mosfellið. Um kvöldið fór síðan fram áhugavert málþing í framhaldsskólanum og Gulrótin afhent í fyrsta sinn.
Gulrótin er lýðheilsuviðurkenning Mosfellsbæjar sem veitt er fyrir brautryðjendastarf í þágu heilsueflingar og bættrar lýðheilsu íbúa.
Svava Ýr Baldvinsdóttir íþróttakennari hlaut viðurkenninguna en hún hefur í áratugi unnið ötullega að lýðheilsu og heilsueflingu allra aldurshópa í Mosfellsbæ. Svava hefur m.a. starfrækt Íþróttaskóla barnanna hjá Aftureldingu í 25 ár en skólinn nýtur mikilla vinsælda. Þá hefur hún þjálfað handbolta í fjölmörg ár og haft umsjón með æfingahópi Morgunhananna í World Class, svo fátt eitt sé nefnt.
„Svava hefur kennt, frætt og byggt upp stóra hópa með heilsueflingu að leiðarljósi,“ segir í rökstuðningi.