Leiðinlegi gaurinn
Systir mín kom í heimsókn um daginn. Sem var gaman, hún er alltaf hress. Svo er hún flott mamma, á hana Ylfu sem er að verða eins og hálfs árs gamall gleðigjafi. Hún, systir mín, ekki Ylfa, bauð mér nammi, piparhúðaðar möndlur. Geggjað stöff sagði hún. En ég afþakkaði. Borða ekki nammi. Hún horfði á mig með sömu augum og stuðboltarnir í partýinu senda edrúgaurnum þegar þeir átta sig á því að hann er edrú. Þarftu alltaf að vera svona boring? Sagði svo að hún þyrfti að prófa þetta einhvern tíma, vera svona leiðinleg. Fara snemma að sofa, vakna snemma, borða hollt og hreyfa sig mikið. Segja nei takk við nammi og gosi. Neita sér um allt það skemmtilega í lífinu.
Það skemmtilega í þessu er að mér finnst lífið stórskemmtilegt. Finnst gaman að hafa skýra ramma með ákveðna hluti og sleppa sumu alveg. Finnst frábært að sofa vel og vakna snemma. Vera ferskur og hress á daginn. Til þess þarf ég að sofna vel fyrir miðnætti. Það þótti stórkostlega fyndið þegar ég var að alast upp. Fólk sem fór að sofa fyrir miðnætti. Það átti ekkert líf. Mér finnst líka gaman að hreyfa mig og æfa, þannig að ekki veldur það sjálfleiðindum. Og ég fæ munkalega gleði út úr því að borða einfaldan mat sem gefur mér kraft og orku. Alveg eins og að gaurinn sem er edrú í partýinu getur skemmt sér vel, þá finnst mér lífið best þegar það er einfalt. Ég þarf ekki á nammi og kökum að halda, finnst ég ekki vera að missa af neinu þótt ég sleppi því að fá mér desert.
Mórall pistilsins er kannski sá að það sem einum finnst vera ómissandi, finnst öðrum vera ónauðsynlegt. Sumir elska mat, aðrir elska fótbolta. Sumir hlusta á Útvarp Sögu, aðrir á X-ið.
Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 6. apríl 2017