Um áramót

sparkler on gold bokeh background macro close up

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri Mosfellsbæjar.

Kæru Mosfellingar!

Um áramót er gott að staldra aðeins við, líta um öxl og jafnframt horfa fram á veginn. Höfum við gengið til góðs og hvernig blasir framtíðin við okkur?
Árið 2016 var að mörgu leyti mjög viðburðaríkt og merkilegt ár hér á landi sem og úti í hinum stóra heimi. Íslendingar kusu nýjan forseta sem er kominn vel á veg með að ávinna sér traust og virðingu þjóðarinnar. Það sama er ekki hægt að segja um nýkjörinn forseta Bandaríkjanna, voldugasta ríkis heims. Þar er ekki sama sáttin um niðurstöðuna, enda var mjótt á munum og málflutningur hins nýkjörna forseta ekki beinlínis til þess fallinn að miðla málum eða skapa sátt.
Þetta finnst mér vera í andstöðu við þá þróun sem átt hefur sér stað á okkar góða landi. Ég skynja meiri sáttahug í samfélaginu og meiri vilja til samvinnu og málamiðlana. Það eru atriði sem mér finnst hafa skort töluvert á síðustu ár í kjölfar fjármálahrunsins og þeirra sára sem hrunið bjó til.
Kosið var til Alþingis á árinu og voru niðurstöður kosninganna að mörgu leyti merkilegar í sögulegu samhengi. Fleiri flokkar hlutu brautargengi inn á Alþingi en áður sem gert hefur stjórnarmyndun flóknari. Nú eru gerðar meiri kröfur til málamiðlana en þegar þetta er skrifað virðist ný ríkisstjórn vera í burðarliðnum. Ríkis­stjórn sem ég hef fulla trúa á að verði góð ríkisstjórn sem getur haldið áfram þeim góðu verkum sem unnin hafa verið og leitt okkur áfram til enn meiri hagsældar á landinu okkar góða.

Kjarasamningar settu svip sinn á árið
Rekstrarumhverfi Mosfellsbæjar fór batnandi á árinu 2016 samfara aukinni hagsæld í þjóðfélaginu. Tekjur hafa aukist þó að kostnaður hafi líka hækkað töluvert vegna nýrra kjarasamninga. En kjarasamningagerð setti töluverðan svip á rekstur sveitarfélaga á árinu 2016.
Kjaradeila við grunnskólakennara var erfið. Kennarar felldu í tvígang samninga milli samninganefndar sveitarfélaga og Félags grunnskólakennara og það var ekki fyrr en í lok árs sem þriðji samningurinn var samþykktur. Það var fagnaðarefni að samningar skyldu nást en ekki verður vikist undan því að þessi erfiða kjaradeila skilur eftir sig einhver sár sem við sveitarstjórnarfólk, kennarar og skólastjórnendur þurfum að leggja okkur fram um að græða á næstu mánuðum og misserum.
Sátt verður að nást til framtíðar um kjör og vinnufyrir­komulag kennara. Að öðrum kosti mun hið mikilvæga starf sem fer fram í skólunum okkar líða fyrir það. Það er einnig áhyggjuefni að ekki hefur tekist að leysa kjaradeilu milli tónlistarskólakennara og sveitarfélaga en langur tími er síðan sá samningur rann út. Það er verkefni nýs árs að leysa þessa deilu og er það mín skoðun að til þess að það sé gerlegt þurfi báðir samningsaðilar að gefa eftir svo málmiðlun sé möguleg.

Mikil uppbygging í Mosfellsbæ
Betra efnahagsástand hefur í för með sér aukna eftirspurn eftir lóðum. Um 400 nýjar íbúðir eru í uppbyggingu í Helgafellshverfi einu. Auk þess eru íbúðir í byggingu í Leirvogstungu og víðar í bænum. Líklegt er að á nýju ári hefjist uppbygging um 200 íbúða í miðbænum. Það mun setja nýjan svip á miðbæinn okkar og gera hann samkeppnishæfari um verslun, þjónustu og ýmis konar menningu. Svona mikil uppbygging kallar einnig á fjárfestingar í innviðum.
Framkvæmdir við gatnagerð verða því áberandi á nýju ári, einkum í nýjum hverfum. Eins fer fram endurnýjun á gangstéttum og öðru viðhaldi í eldri hverfum. Framkvæmdir eru hafnar við nýjan skóla í Helgafellshverfi en það verður langstærsta einstaka framkvæmd sveitarfélagsins á næstu árum. Gert er ráð fyrir að fyrsti áfangi skólans verði tekinn í notkun haustið 2018.
Það er einnig ánægjulegt að greina frá því að uppbygging á atvinnuhúsnæði verður talsverð á næstu árum. Lóðum hefur verið úthlutað í Desjamýri og uppbygging þar hafin. Samningur hefur verið gerður um uppbyggingu á lóðum við Sunnukrika sem einnig er hluti af miðsvæði bæjarins. Þar hefur lóðum verið úthlutað til mögulegrar hótelbyggingar og ferðaþjónustu.
Samningur hefur verið gerður milli landeiganda og Mosfellsbæjar um uppbyggingu á verslun og þjónustu á svæði syðst á Blikastaðalandi en þar gerir aðalskipulag ráð fyrir að geti byggst um allt að 100 þúsund fm atvinnuhúsnæðis. Þetta eru allt góðar fréttir fyrir íbúa Mosfellsbæjar og afkomu sveitarfélagsins.

Þjónustuaukning samkvæmt fjárhagsáætlun
Fjárhagsáætlun fyrir árið 2017 felur í sér ákvörðun um aukna þjónustu sveitarfélagsins ásamt lækkun skatta og gjalda. Má nefna að grunnfjárhæð frístundaávísunar hækkar um rúm 18% og stofnun Ungmennahúss verður veitt brautargengi í samstarfi við Framhaldsskólann í Mosfellsbæ.
Auknum fjármunum verður veitt til leikskóla bæjarins svo hægt verði að taka á móti 1 – 2ja ára börnum með sem bestum hætti. Auk þessa er gert ráð fyrir að tónlistarkennsla Listaskólans inni í grunnskólunum verði efld svo fleiri nemendur eigi þess kost að stunda tónlistarnám.
Bæjarstjórn hefur samþykkt að lækka álagningarhlutfall útsvars sem og álagningarhlutföll fasteignagjalda. Þannig er tryggt að allir njóti með einhverjum hætti góðs af betra rekstrarumhverfi sveitarfélagsins. Ekki er gert ráð fyrir hækkun gjaldskráa almennt fyrir veitta þjónustu, s.s. leikskólagjalda og eru gjaldskrár því að lækka að raungildi.

Framtíðin er björt í Mosfellsbæ og með gildin okkar góðu VIRÐINGU – JÁKVÆÐNI – FRAMSÆKNI og UMHYGGJU að leiðarljósi eru okkur allir vegir færir. Mosfellsbær á 30 ára kaupstaðarafmæli í ágúst og verður haldið upp á það með veglegum hætti.
Af áhugaverðum verkefnum má einnig nefna lýðræðisverkefnið Okkar Mosó sem ég bind vonir við að fái góðar móttökur hjá bæjarbúum. Ég vil nota tækifærið og þakka ykkur öllum fyrir gott samstarf, samskipti, vináttu og stuðning á árinu 2016 og megi nýrunnið ár verða okkur öllum gæfuríkt og gleðilegt.

Haraldur Sverrisson
bæjarstjóri