Opnar ljósmyndaver á Reykjaveginum
Ljósmyndarinn Harpa Hrund flutti nýlega með ljósmyndaverið sitt í Mosfellsbæinn. „Við vorum búin að leita lengi að húsi sem rúmaði okkur öll, fimm manna fjölskyldu hund, kött og ljósmyndaverið mitt sem ég hef undanfarin 11 ár rekið í Skeifunni.
Við keyptum húsið Borg á Reykjavegi 88. Við tók mikil vinna við að standsetja húsið og núna skiljum við það virkilega hvað fólk meinar þegar það talar um blóð, svita og tár. Við erum enn að gera upp húsið en ég byrjaði að mynda í nýja stúdíóinu í september. Við stefnum á að flytja sjálf inn eftir jól,“ segir Harpa Hrund.
Fjölskyldan alsæl í Mosó
„Við erum rosalega ánægð hér, börnin skilja ekkert í því af hverju við fluttum ekki fyrr í Mosfellsbæinn. Það er mikill léttir að börnin séu svona ánægð því það er auðvitað það sem foreldrar óttast mest þegar maður flytur í nýtt bæjarfélag.
Umhverfið hér er dásamlegt, við elskum kyrrðina og náttúruna. Húsinu fylgir líka stór garður, við erum með græna fingur og hlökkum mikið til að gera hann enn fínni.“
Verkstæði jólasveinsins
„Margir viðskiptavina minna eru úr Mosfellsbæ og eru þeir ánægðir með flutningana. Ég viðurkenni alveg að ég var smá stressuð að viðskiptavinum mínum þætti langt að koma til mín í Mosó en ég held að allir séu sáttir. Nýja ljósmyndaverið er kósý svo ég tali nú ekki um möguleikana á útitökum í náttúrunni.
Núna er jólatörnin yfirstaðin og hafa verið myndatökur alla daga og vinnsla á stækkunum og jólakortum á kvöldin. Fyrirtækið breyttist í hálfgert verkstæði jólasveinsins og margir hafa hjálpað til.
Þeir sem hafa áhuga á að koma í myndatöku í „sveitina“ geta skoðað heimasíðuna mína, www.harpahrund.is,“ segir Harpa Hrund að lokum.