Áætlað að opna ungbarnadeildir á Hlíð og Huldubergi

leikskolafrett

Í fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar sem nú liggur fyrir bæjarstjórn er gert ráð fyrir talsverðu fjármagni til að auka þjónustu við börn á aldrinum 1 til 2 ára.

Ungbarnadeildir á Hlíð og Huldubergi
Verið er að leggja til að boðið verði upp á fjölbreytt form á vistun fyrir ung börn og að þjónustan verði þríþætt.
Það er í fyrsta lagi pláss hjá dagforeldrum bæjarins. Í öðru lagi hefur Mosfellsbær gert samninga við einkarekinn ungbarnaleik­skóla um að 10 pláss verði frátekin fyrir börn frá Mosfellsbæ og fleiri samningar eru í skoðun. Í þriðja lagi verði starfræktar tvær ungbarnadeildir á leikskólum bæjarins þar sem tekið verður inn eftir innritunarreglum leikskóla Mosfellsbæjar. Önnur deildin verður á Huldubergi og hin á Hlíð. Þær taki samtals á móti 28 börnum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Mosfellsbæ.

Samræming á gjaldtöku
Auk þessa er gert ráð fyrir breytingum á aldri barna þegar kemur að úthlutun í leikskóla. Sá aldur yrði færður frá 24 mánaða niður í 18 mánaða, tekið inn eftir innritunarreglum leikskóla. Einnig er lagt til að öll gjöld verði samræmd á þann hátt að fram að 18 mánaða aldri barns greiði foreldrar sama gjald fyrir ungbarnaþjónustu, óháð þjónustuformi, en eftir það almennt leikskólagjald.
Lagt er til að verkefnið verði þróunarverkefni til eins árs. Staða verkefnis verður metin annan hvern mánuð og í heild sinni við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2018. Viðbótarkostnaður við þessa þjónustubreytingu er áætlaður um 40 milljónir króna.

Útfærsla sem felur í sér val
„Ánægjulegt er að geta svarað kalli foreldra um hærra þjónustustig við yngstu íbúana,“ segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri.
„Þetta tímabil er viðkvæmt hjá flestum fjölskyldum og mikilvægt að hlúa vel að því. Ég er sérlega ánægður með að útfærslan feli í sér sveigjanleika, fjölbreytni og ekki síst valfrelsi.“