Komu færandi hendi í Reykjadal

kjosarkonur

Kvenfélagskonur úr Kjósinni komu færandi hendi í Reykjadal um síðustu helgi. Þá afhentu þær glænýja þvottavél að gjöf sem hefur bráðvantað á staðinn.
Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra rekur sumar- og helgardvalarstað í Reykjadal fyrir fötluð börn og ungmenni. Árlega dveljast þar um 250 börn á aldrinum 8-21 árs.
Konurnar í Kvenfélagi Kjósarhrepps hafa dáðst af starfinu sem fram fer í Reykjadal og ákvaðu því að styrkja starfsemina að þessu sinni.

Hjartastuðtæki til Kjósarhrepps
Á haustdögum færðu þær einnig Kjósarhreppi tvö hjartastuðtæki en lengi hefur staðið til að eiga slík tæki í sveitinni. Kjósarhreppur mun mun festa kaup á þriðja tækinu og ákveða í framhaldinu staðsetningu tækjanna í samvinnu við fagaðila.
Í kvenfélagi Kjósarhrepps eru 18 öflugar konur sem með krafti sínum hafa stutt við verðug verkefni í samfélaginu. Þær halda árlegt þorrablót, selja kaffi á Kátt í Kjós og á jólamarkaði, standa fyrir kosningakaffi og ýmsum viðburðum sem falla til.
Síðasta árið hefur kvenfélagið gefið á aðra milljón til ýmissa góðra málefna og vilja þær koma á framfæri sérstökum þökkum til allra þeirra sem hafa stutt við félagið.