Öll erum við neytendur
Samkeppni, gott viðskiptasiðferði og frjáls markaður veita aðhald og stuðla að efnahagslegum framförum og hagsæld almennings. Þess vegna á að nýta markaðslausnir á öllum sviðum nema þar sem almannahagsmunir krefjast annars.
Frjáls samkeppni er best til þess fallin að tryggja neytendum fjölbreytt úrval vöru og þjónustu. Samtímis þarf að hafa skilvirkt samkeppniseftirlit og tryggja almenna neytendavernd.
Réttur neytenda
Settar hafa verið fram nokkrar grundvallareglur til þess að tryggja rétt neytenda. Þar má helst nefna að geta valið milli fjölbreytts varnings og þjónustu á samkeppnishæfu verði og af fullnægjandi gæðum. Svo er það rétturinn til að fá nauðsynlegar upplýsingar til að geta mótað skynsamlegt val og ákvarðanir.
Sem betur fer eru þessi réttindi í flestum tilvikum virt. Því miður eru á þessu undantekningar, stórar og smáar, sem brýnt er að lagfæra.
Fyrst skal nefna búvörusamninga, tolla og innflutningshöft sem leiða til skerts vöruúrvals og hærra verðs til neytenda en ella væri. Að auki er vandséð að bændur hagnist á þessu fyrirkomulagi.
Þá eru það reglur sem koma í veg fyrir að t.d. tannlæknar geti auglýst sína þjónustu og þar með gjaldskrár. Þannig er komið í veg fyrir að neytendur geti kynnt sér mismunandi verð og þjónustu. Kraftar samkeppninnar fá ekki að virka. Það er vont fyrir neytendur og þá tannlækna sem veita ódýra þjónustu.
Loks skulu nefnd uppgreiðslugjöld fjármálastofnana. Skuldurum er gert mjög erfitt um vik að færa viðskipti sín til lánastofnana sem bjóða betri vexti og þjónustu. Kostnaðurinn við að færa viðskiptin getur verið það hár að hann standi í vegi fyrir raunverulegu vali neytandans. Meginröksemd lánastofnana fyrir uppgreiðslugjaldi er að þær verði að geta varist áföllum vegna hugsanlegrar uppgreiðslu á lánum fyrir gjalddaga. Það stangast á við rétt neytandans og hindrar samkeppni. Þetta verður að lagfæra.
Jón Steindór Valdimarsson
Skipar 2. sæti á lista Viðreisnar
í Suðvesturkjördæmi