Við kjósum um framtíðina

Bryndís Haraldsdóttir

Bryndís Haraldsdóttir

Kæru Mosfellingar, senn líður að kosningum til Alþingis og miklu máli skiptir að á Alþingi veljist flokkar og fólk sem tryggir áframhaldandi velgengni íslensku þjóðarinnar.
Nauðsynlegt að tryggja hér áframhaldandi stöðugleika svo verðbólgan haldist lág. Það tryggir einnig lækkun stýrivaxta. Til framtíðar er mikilvægt að lánakjör hér séu í samræmi við það sem við þekkjum í nágrannalöndum okkar.

Á þessu kjörtímabili hefur orðið alger viðsnúningur í rekstri ríkissjóðs. Við höfum greitt upp mikið af skuldum, en staðan er sú að vaxtagreiðslur eru einn af stærstu útgjaldaliðum ríkissjóðs. Þess vegna er nauðsynlegt að halda áfram á þeirri vegferð að greiða niður skuldir. Því þannig skapast svigrúm til að setja aukna fjármuni í þau góðu mál sem við erum öll sammála um; öflugt heilbrigðiskerfi, enn betra menntakerfi, örugga vegi og síðast en ekki síst málefni eldri borgara.

Á síðustu árum hef ég unnið fyrir þig, Mosfellingur góður, að því að gera okkar góða bæjarfélag enn betra og ég hyggst gera það áfram. En nú býð ég jafnframt fram krafta mína til þingsetu og er tilbúin að takast á við þau verkefni sem bíða nýs Alþingis.

Ég vil hvetja þig til að mæta á kjörstað 29. október næstkomandi og setja X við D

Bryndís Haraldsdóttir
Formaður bæjarráðs Mosfellsbæjar og skipar 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í SV kjördæmi.