Handan við hornið
Kosningar til alþingis eru handan hornsins en aðdragandi þeirra hefur verið óvenjulegur að þessu sinni: síðastliðið vor var ákveðið að stytta þinghald um einn vetur vegna spillingarmála, ríkisstjórnin dró það harla lengi að fastsetja kjördag og undir lokin starfaði þingið um hríð án þess allir sæju tilgang þess.
Þinghaldið reyndist það lengsta í sögunni en dagaði uppi án þess að 26 stjórnarfrumvörp og 100 þingmannafrumvörp yrðu leidd til lykta; segir það sitt um starfshætti alþingis Íslendinga.
Óvenju margir framboðslistar hafa komið fram að þessu sinni, 10-11 í sérhverju kjördæmi. VG býður fram sterka lista um allt land og kosningaáherslur flokksins byggja á grunnstoðum hans sem eru félagslegur jöfnuður, jafnréttismál og umhverfismál. Hér í Suðvesturkjördæmi leiðir Rósa Björk Brynjólfsdóttir lista VG, í öðru sæti er Ólafur Þór Gunnarsson og Mosfellingurinn Una Hildardóttir skipar þriðja sætið.
Um þessar mundir birtast stöðugt niðurstöður skoðanakannana um fylgi einsta
kra flokka. Þar hafa vinstri-græn notið vaxandi fylgis og gott brautargengi flokksins hér í Kraganum gæti skilað tveimur öflugum þingmönnum úr þeirra röðum. Nýleg Gallup-könnun hefur einnig leitt í ljós að kjósendur treysta Katrínu Jakobsdóttur formanni VG langbest til að leiða næstu ríkisstjórn; það gæti gerst ef kjósendur fylkja sér um VG í komandi kosningum.
Bjarki Bjarnason