Tækifæri í ferðaþjónustu
Það eru endalaus tækifæri í auknum ferðamannastraumi til landsins. Í raun má segja að stefna Sjálfstæðisflokksins geti kristallast í þessari þjónustugrein sem miðar að því að hver og einn hafi tækifæri til að stofna fyrirtæki til að sjá sér og sínum farborða.
Það hefur verið ótrúlega jákvætt að fylgjast með hverju fyrirtækinu og frumkvöðlinum á fætur öðrum grípa þessar gullnu gæsir sem hingað koma til að skoða landið og kynnast þjóðinni. Veitingastaðir spretta upp, bæði í þéttbýli sem dreifbýli. Ævintýraferðir seljast eins og heitar lummur, hvort sem þær eru gerðar til að ferðast um í 101 eða víðáttunni á hálendinu. Til að taka á móti miklum fjölda ferðamanna þurfa allir innviðir að vera sterkir.
Allt er þetta jákvætt fyrir íslenskan efnahag en margt má betur undirbúa. Ákveðið ráðleysi hefur einkennt tilraunir til gjaldtöku svo efla megi innviðina. Náttúrupassinn var ágætis hugmynd, nútímaleg en flókin í kynningu sem og hafa komugjöld verið ítrekað rædd en því miður lítið orðið um framkvæmdir í þeim efnum. Gistináttagjaldið þarf mögulega að hækka ef ekkert er að gert í annarri gjaldtöku.
Þegar ég nefni að verðum að efla innviðina þá er ég ekki bara tala um að bæta klósettaðstöðu við Gullfoss. Við verðum að gæta betur að t.d. öryggi ferðamanna sem vafra hér um grunlausir um ýmsar hættur hrjóstugs lands. Ekki getum við endalaust treyst á duglegar björgunarsveitir í sjálfboðavinnu og gengið fram af því góða starfi.
Því miður hafa orðið og verða án efa bæði slys og dauðsföll vegna þess að ekki er farið nægilega varlega. Kynna verður hættur landsins og mögulega hvetja ferðamenn að tryggja sig við komu. Athafnir sem eru okkur tamar og þekktar geta valdið mikilli örvæntingu þeirra sem ekki þekkja íslenskt umhverfi. Einbreiðar brýr, þröngir akvegir og íslenskt veðrátta er eitthvað sem fáir eru undirbúnir fyrir.
Karen Elísabet Halldórsdóttir
sækist eftir 3.sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi.