Upp, upp mitt geð
Vonandi hafa allir notið sumarsins í faðmi fjölskyldu og/eða vina og náð að hlaða sig orku og jákvæðni fyrir veturinn. Við í Heilsueflandi samfélagi ætlum að halda áfram uppteknum hætti og munu haustið og veturinn bera ýmislegt spennandi og skemmtilegt í skauti sér.
„Hugsaðu jákvætt, það er léttara“
Sýnt hefur verið fram á það að hafa jákvæðni í orði fyrir augunum hjálpar okkur við að beina huganum á jákvæðar brautir og þá verður lífið einhvern veginn auðveldara. Margir hafa orðið sér úti um myndir og skilti með alls kyns jákvæðni og hafa þeir hinir sömu alveg klárlega upplifað þessi áhrif á eigin skinni. Eitt síðasta verk Vinnuskóla Mosfellsbæjar nú í sumar að einmitt að mála jákvæð skilaboð til bæjarbúa á gangstéttir bæjarins. Frábært framtak til að hjálpa okkur að hugsa jákvætt því það er í raun og sann léttara!
Í túninu heima
Bæjarhátíð okkar Mosfellinga, Í túninu heima, verður haldin með pompi og prakt núna um helgina. Þetta er sannkölluð fjölskylduhátíð með heilsueflandi ívafi þar sem aðal markmiðið er að ungir sem aldnir komi saman, auðgi andann og njóti samverunnar með fjöldskyldu og vinum. Dagskráin er að venju glæsileg en hana má finna á heimasíðu bæjarins og að sjálfsögðu hér í Mosfellingi.
Tindahlaupið
Eitt skemmtilegasta hlaup sumarsins, Tindahlaupið í Mosfellsbæ, er framundan og verður einn af hápunktum bæjarhátíðarinnar Í túninu heima. Í þessu náttúru- og/eða utanvegahlaupi verða fjórar útfærslur í boði, þ.e. 7 tindar (37 km), 5 tindar (35 km), 3 tindar (19 km) og 1 tindur (12 km). Hlaupið verður laugardaginn 27. ágúst og því tilvalið að reima á sig skóna og velja sér áskorun við hæfi. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðum Mosfellsbæjar mos.is og hlaup.is
Fellaverkefni og ratleikur
Við munum í samvinnu við Ferðafélag Íslands blása á ný til Fellaverkefnis nú í haust með aðeins breyttu sniði þar sem göngunum verður dreift yfir lengri tíma en í fyrra. Við munum einnig ýta úr vör ratleik sem við höfum verið að útbúa í samvinnu við nemendur í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ og Ferðafélagið. Nánari upplýsingar um þetta hvort tveggja verður að finna í næsta Mosfellingi þannig að þið getið strax farið að láta ykkur hlakka til.
Það verður sem sagt af nógu að taka og hvetjum við ykkur sem fyrr til að taka þátt í þessu frábæra verkefni sem Heilsueflandi samfélag er. Hlúum að því sem okkur þykir vænt um og verum til fyrirmyndar!
Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsufræðingur
og verkefnisstjóri Heilsueflandi
samfélags í Mosfellsbæ