Heilbrigðisþjónusta í fremstu röð

elinhirst

Elín Hirst

Heilbrigðismálin verða í forgangi hjá Sjálfstæðisflokknum á næsta kjörtímabili eins og formaður flokksins hefur boðað.
Ég fagna þeirri sýn og er þeirrar skoðunar að enda þótt vægi heilbrigðismála hafi aukist verulega undir forystu núverandi ríkisstjórnar þurfi að gera enn betur á næstu árum. Þar er að mörgu að hyggja.

Við þurfum að efla enn frekar heilsugæsluna og styrkja okkar aðal sjúkrahús Landspítalann við Hringbraut. Fyrir liggur áætlun um meiriháttar endurbætur og endurbyggingu spítalans, auk kaupa á nýjum tækjum. Hafin er bygging sjúkrahótels á lóð spítalans við Hringbraut og miklu skiptir að hefjast sem fyrst handa við byggingu nýrrar bráðadeildar.
Mín skoðun er sú að einnig sé tímabært að skoða og ræða byggingu annars fullkomins hátæknispítala, sem við Íslendingar þurfum að geta tekið í notkun eftir 20-30 ár. En það er verkefni númer tvö, á eftir því að klára margsamþykkta uppbyggingu við Hringbraut.

Eldri borgurum þessa lands fer hratt fjölgandi á næstu árum og við þurfum að geta hlúð að þeim, hvort heldur er með heimahjúkrun eða á hjúkrunarheimilum. Börn og unglingar eiga því miður í vaxandi mæli við ýmis kvíðavandamál að stríða og þeim vanda verðum við að mæta og tryggja að þeim líði vel og þau blómstri. Þau eru jú framtíðin. Langveikum börnum fjölgar hér á landi. Þau eru oft að kljást við sjaldgæfa og mjög erfiða sjúkdóma og eiga að fá bestu þjónustu sem völ er á.

Þetta eru dæmi úr fjölbreyttri flóru viðfangsefna heilbrigðisþjónustu sem þarf að taka myndarlega á. Sjálfstæðisflokkurinn lofar aukinni áherslu á bætta samfélagsþjónustu, minni greiðsluþátttöku sjúklinga, eflingu Landspítalans og bætta heilbrigðisþjónustu með stórauknum fjárframlögum á næsta kjörtímabili. Þetta getum við ekki síst vegna þess að ríkissjóður stendur vel eftir okkar ríkisstjórn.
Staðfesta í ríkisfjármálum er og verður kjölfestan í okkar stefnu. Ríkissjóður hefur verið rekinn með afgangi og áhersla lögð á að greiða niður skuldir og lækka vaxtabyrðina. Lækkun vaxtagreiðslna er fundið fé og við munum einmitt uppskera af þessum verkum á næstu árum.
Mitt aðalkeppikefli er að Íslandi geti í náinni framtíð státað af heilbrigðisþjónustu í fremstu röð. Annað er ekki í boði.

Kær kveðja, Elín Hirst alþingismaður.
Ég býð mig fram í 2.-3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi 10. september nk.