Ísak Snær á leið í atvinnumennsku
Hin ungi og efnilegi knattspyrnumaður Ísak Snær Þorvaldsson flytur nú í júnímánuði til Norwich ásamt fjölskyldu sinni.
Ísak er 15 ára gamall og hefur spilað allan sinn feril með Aftureldingu. Hann er sonur hjónanna Þorvaldar Ásgeirssonar og Evu Hrannar Jónsdóttur.
„Ég er mjög spenntur fyrir þessu tækifæri, ég mun æfa og keppa með U16 og U18 liðum Norwich,“ segir Ísak. „Þetta byrjaði þannig að þeir buðu mér í gegnum umboðsmanninn minn að koma á reynslu hjá þeim í apríl 2015. Síðan þá hef ég farið fjórum sinnum til þeirra og æft með félaginu auk þess að taka þátt í Rey Cup með þeim í fyrrasumar.“
Draumur að verða atvinnumaður
„Þetta er mikið tækifæri fyrir Ísak sem hefur lengi stefnt að því að verða atvinnumaður í fótbolta. Við fjölskyldan lítum líka á þetta sem ævintýri og erum ákveðin í að njóta þess,“ segir Þorvaldur. „Ísak byrjar á því að fara í einkaskóla þar sem hann mun klára 10. bekk en í framhaldinu verður hann svo alfarið í akademíunni hjá þeim þegar hann hefur náð 16 ára aldri.
Við komum til með að búa í nágrenni við æfingasvæði, okkur líst mjög vel á þessa borg og það hefur verið einstaklega vel tekið á móti okkur.“
Þeir feðgar eru sammála um að Norwich sé góður klúbbur, frábærir þjálfarar og góður andi meðal strákanna. „Þetta er búið að vera draumur hjá mér lengi og aðalmarkmiðið hjá mér núna er að hafa gaman af þessu og njóta en að sjálfsögðu að gera mitt besta,“ segir Ísak að lokum.