Lét æskudraum sinn rætast

HlífMosfellingur

Hlíf Ragnarsdóttir hefur margra ára reynslu sem hársnyrtimeistari en hún rak áður hárgreiðslustofu í Þorlákshöfn. Árið 2013 færði hún sig um set og opnaði stofu í Mosfellsbæ. Hún segist ekki sjá eftir þeirri ákvörðun því hér finnst henni gott að vera og hún er þakklát bæjarbúum sem hafa tekið vel á móti henni.

Hlíf er fædd í Vestmannaeyjum 5. ágúst 1967. Foreldrar hennar eru þau Anna Jóhannsdóttir húsmóðir og Ragnar Þór Baldvinsson fyrrverandi slökkviðliðsstjóri. Systkini Hlífar eru þau Jóhann Freyr, Þórunn og Ragna.

Taldi víst að pabbi myndi slökkva í þessu
„Ég er fædd og uppalin í Vestmannaeyjum. Ég var á sjötta ári þegar það byrjaði að gjósa í Eyjum og mínar æskuminningar tengjast því flestar gosinu.
Ég man eins og það hafi gerst í gær þegar foreldrar mínir vöktu mig og bróður minn þessa örlagaríku nótt. Þau klæddu okkur systkinin og sýndu okkur svo út um stofugluggann það sem blasti við.
Pabbi var í slökkviliðinu og þess vegna varð ég ekkert óttaslegin, taldi víst að pabbi myndi bara slökkva í þessu. Ég átti erfitt með að skilja að við þyrftum að fara niður á bryggju í bát sem átti að flytja okkur til Þorlákshafnar.“

Var svakalega sjóveik þessa nótt
„Það var þéttsetið í hverjum bát. Okkur fjölskyldunni var komið fyrir í klefa og var okkur börnunum gert að deila kojum en mæðurnar sátu á stólum.
Reglulega kom maður inn sem tæmdi jólakökuformin sem við ældum í. Ég var alveg svakalega sjóveik þessa nótt og hefur það því miður fylgt mér fram á fullorðinsár. Pabbi kom með í bátnum til Þorlákshafnar en sigldi síðan strax aftur til Eyja þar sem hann vann við björgunarstörf.
Fyrst um sinn bjuggum við hjá ömmu og afa því við vorum allslaus en mamma lét okkur aldrei finna fyrir því. Seinna leigðu foreldrar mínir íbúð í Laugardalnum. Ég þekkti pabba ekki í eitt skiptið þegar hann kom upp á land, hann var alskeggjaður enda enginn tími til að hugsa um útlitið á hamfaratímum.“

Fluttu í Mosfellssveit
„Á meðan gosið stóð yfir var óljóst hvort við gætum flutt aftur til Eyja. Foreldrar mínir keyptu því lóð við Arnartanga í Mosfellssveit. Amma mín og afi, Þórunn og Baldvin, byggðu sér hús í sömu götu. Það leið ekki langur tími þangað til það kom í ljós að við gátum flutt aftur heim, húsið okkar fór ekki undir hraun.
Ég fór á hverju sumri til afa og ömmu í Mosó. Mér fannst það alveg dásamlegt því í minningunni var alltaf svo gott veður og gróðurinn svo fallegur. Þetta voru mínar utanlandsferðir í æsku.“

Ákváðum að prófa hvor á annarri
„Eftir gos eignaðist ég góða vinkonu sem bjó í næsta húsi. Við áttum sameiginlegan draum, við ætluðum að verða hárgreiðslukonur þegar við yrðum stórar.
Við ákváðum að prófa okkur áfram hvor á annarri. Hún var með ákaflega fallegt ljóst og liðað hár. Við ákváðum að hún myndi fyrst spreyta sig á mér og var ég orðin vel stuttklippt þegar mamma kom að okkur. Ég missti því af tækifærinu að klippa ljósu lokkana hennar.
Í dag erum við báðar lærðar í faginu og því ekkert að óttast að setjast í stól hjá okkur,“ segir Hlíf kímin.

Erfitt að ná endum saman
„Eftir grunnskóla hóf ég sem sagt nám í háriðn. Ég flutti upp á land til afa og ömmu og komst á samning hjá Hársporti Díönu í Þverholti. Mér leið vel í sveitinni, afi vann þá sem húsvörður í íþróttahúsinu og ég var oft samferða honum á morgnana og byrjaði daginn á sundspretti í Varmárlaug.
Nemalaunin voru léleg og það var erfitt að ná endum saman svo með náminu vann ég á vídeóleigu. Ég leigði mér síðar herbergi í Breiðholti.
Þegar námi mínu var að ljúka keypti Ingibjörg Jónsdóttir Hársport og breytti nafninu í Pílus, ég starfaði hjá henni um tíma.“

Klæddi mig í betri fötin
„Þegar ég var búin með námið langaði mig svakalega til að eignast mína eigin hárgreiðslustofu. Í Eyjum voru margar stofur og ég þorði ekki í eigin rekstur þar.
Ég sá tækifæri í Þorlákshöfn, þar var engin stofa. Ég klæddi mig í betri fötin, pantaði viðtal hjá bankastjóranum og bað um lán. Mér er það óskiljanlegt hvernig honum datt í hug að lána þessari tvítugu stúlku peninga en hann sá aumur á mér og lánið dugði til að opna stofuna. Ég rak hana síðan í yfir 20 ár.“

Kynntust á Hótel Örk
„Í Þorlákshöfn leið mér vel, ég vann mikið og um tíma rak ég einnig stofu á Hótel Örk. Þar kynntist ég Stefáni sem síðar varð eiginmaður minn. Þetta var árið 1992. Fyrir átti ég ársgamla dóttur, Önnu Mjöll og hann ársgamlan dreng, Birgi Frey.
Stefán flutti til mín til Þorlákshafnar og við giftum okkur 5. ágúst 1997. Stefán er viðskiptafræðingur að mennt og starfar í Umhverfis-og auðlindaráðuneytinu. Árið 1999 stækkaði fjölskyldan þegar við Stefán eignuðumst stúlku, hana Elínu Perlu.“

Fór langt út fyrir þægindarammann
„Anna Mjöll hóf nám í Reykjavík og var keyrð á morgnana til Hveragerðis til að taka rútu í bæinn og svo sótt aftur. Eftir nokkur ár í þessari rútínu ákváðum við að nú væri tímabært að flytja nær höfuðborginni. Ég hóf störf sem sölustjóri hjá heildverslun sem þjónustaði hárgreiðslustofur á landinu. Ég fór langt út fyrir minn þæginda­ramma en lærði um leið ákaflega margt.“

Sé ekki eftir neinu
„Á þessum tíma sótti ég nám til viðurkennds bókara í Háskóla Íslands og hafði gaman af en mig langaði í hárgreiðsluna aftur. Ég fór markvisst að leita mér að stofu til kaups og fann eina í Mosfellsbæ, Texture. Ég ákvað að stökkva á þetta tækifæri og sé ekki eftir því. Ég breytti nafninu í Hárnýjung hárstúdíó enda hefur það nafn fylgt mér nánast alla tíð.
Við erum þrjár sem vinnum á stofunni og okkur hefur verið afar vel tekið hér. Svo hefur Arna Eir snyrtifræðingur opnað aðstöðu hjá okkur en hún rekur Snyrtistofuna Eir snyrtihof. Samstarf okkar allra gengur ákaflega vel og við eigum okkar föstu viðskiptavini.“

Ítalía í uppáhaldi
„Við Stefán erum ákaflega lánsöm í leik og starfi. Börnin okkar eru öll í námi og þeim gengur vel. Við eigum tvö barnabörn.
Helstu áhugamál mín eru göngur, mat­seld, ferðalög og samvera með fjölskyldunni. Ítalía er uppáhaldsland fjölskyldunnar og við stefnum á að fara í góða ferð þangað á næsta ári og njóta lífsins.“

Mosfellingurinn 23. júní 2016
Myndir og texti: Ruth Örnólfs