Sefur þú nóg?
Svefn er öllum manneskjum mikilvægur enda ein af grunnþörfum mannsins. Hann veitir hvíld, endurnærir líkamann og endurnýjar orkuna sem gefur okkur kraft til að takast á við dagsins gleði og amstur og er því nauðsynlegur þáttur heilbrigðra lífshátta.
Hann styrkir jafnframt ónæmiskerfið og gerir okkur betur í stakk búin til að mæta alls kyns umgangspestum og öðrum kvillum. Því er nægur og góður svefn mikilvæg forsenda góðrar líkamlegrar, andlegrar og félagslegrar heilsu og vellíðunar.
Svefntími barna og fullorðinna
Samkvæmt rannsóknum Örnu Skúladóttur, barnahjúkrunarfræðings, á íslenskum börnum, spannar heildarsvefntími 9-14 mánaða gamalla barna 12,5 – 15,5 klst. á sólarhring (dag- og nætursvefn). Í aldursflokknum 15 – 23 mánaða mælist svefntíminn á bilinu 11,5 – 15,5 klst. á sólarhring og 10,5 – 13 klst. hjá 2-4 ára börnum. Frá 5 ára aldri og fram á táningsár er heildarsvefntíminn á bilinu 9 – 11 klst. á nóttu. Þegar kemur fram á fullorðinsár dregur úr svefnþörf einstaklinga en ráðlagður svefntími þessa aldurshóps er um 7-8 klst. á nóttu.
Nýlegar rannsóknir sýna hins vegar að við sofum ekki nóg og á það sérstaklega við um ungmenni og fullorðna. Ef við náum ekki að uppfylla svefnþörf okkar þá getur það valdið streitu sem safnast upp í líkama okkar. Slíkt getur valdið pirringi, hvatvísi, skorti á einbeitingu og skert hæfni okkar á mörgum sviðum.
Góður svefn – hvernig?
Til eru mörg góð ráð til að sofna og sofa betur. Mikilvægt er umhverfið þar sem við leggjumst til svefns sé rólegt og hlýlegt og til þess fallið að kalla fram vellíðan. Gott er að hafa hæfilega svalt og ekki verra að sofa við opinn glugga. Dagleg líkamleg áreynsla leiðir til dýpri svefns og gott er að sleppa notkun raftækja, sjónvarps, tölva o.s.frv., rétt fyrir svefninn til að auka líkurnar á því að við náum þeirri slökun og ró sem er svo nauðsynleg til að geta fjarlægst áreiti dagsins.
Á þann hátt getum við best notið hvíldarinnar sem gerir okkur síðan tilbúnari til að takast á við næsta dag með jákvæðu hugarfari og gleði. Svefn hefur einfaldlega áhrif á það hvernig okkur líður, samskipti við annað fólk, starfshæfni og lífsgæði okkar almennt. Sofðu rótt!
Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsufræðingur
og verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ