Stuðla að hreyfingu eldri borgara

hreyfispjold

Íþróttafræðingarnir Gerður Jónsdóttir og Anna Björg Björnsdóttir hafa hannað einföld æfingaspjöld fyrir eldri borgara sem auka styrk, þol, liðleika og jafnvægi.
Æfingarnar eru framkvæmdar með eigin líkamsþyngd og án útbúnaðar. Þær standa nú fyrir söfnun á hópfjármögnunarsíðunni Karolina Fund „Við vorum saman í námi í Háskólanum í Reykjavík. Einn áfanginn í Mastersnáminu snéri að hreyfingu eldri borgara, það má segja að hugmyndin að hreyfispjöldunum hafi kviknað þá,“ segir Gerður en hún starfar sem einkaþjálfari og Anna Björg sem íþróttakennari.

Skemmtilegt að vinna með eldri borgurum
„Í náminu fengum við mikinn áhuga á hreyfingu eldri borgara og komumst að því að lítið er til af aðgengilegu efni fyrir þennan hóp í samfélaginu. Því teljum við þörfina mikla og nauðsynlegt að koma þessu verkefni á fót.
Öll eldumst við og einn óumflýjanlegur þáttur öldrunar er að öll líkamsstarfsemi okkar skerðist, sem hægt er að koma í veg fyrir með reglubundinni hreyfingu,“ segir Gerður. „Rannsóknir hafa sýnt að með því að hreyfa sig má draga verulega úr heilbrigðiskostnaði í landinu. Hreyfing stuðlar m.a. að lækkun blóðþrýstings, styrkur eykst, aukinn liðleiki og jafnvægi sem hefur í för með sér að aldraðir geta lifað sjálfstæðara lífi mun lengur en ella.“

Allir geta nýtt sér hreyfi­spjöldin
Hreyfispjöldin eru í hentugri stærð og ekki nauðsynlegt að hafa reynslu af hreyfingu þar sem á spjöldunum eru myndir og fullnægjandi útskýringar.
Hvert spjald tilgreinir ítarlega hvaða líkamshluta sú æfing eigi við, s.s. háls, herðar, kvið eða læri. Einstaklingar geta þannig auðveldlega valið æfingu fyrir þann líkamshluta sem þeir telja þörf á að þjálfa hverju sinni. Spjöldin nýtast einnig við að efla hugmyndaflug og hvetja til æfinga. Spjöldin eru án útbúnaðar og auðvelt er að ferðast með þau. Það geta allir nýtt sér hreyfispjöldin, jafnt ungir sem aldnir.
„Við höfum lagt mikla vinnu í að búa til þessi spjöld. Við biðlum til ykkar að styrkja þetta verkefni svo við getum lagt lokahönd á það og stuðlað að heilsueflingu eldri borgara.“ Allar upplýsingar má finna á Karolina Fund undir Hreyfispjöld fyrir eldri borgara.

1 reply

Trackbacks & Pingbacks

  1. […] Sjá nánar á mosfellingur.is […]

Comments are closed.