9 mánuðir

Halla Karen Kristjánsdóttir

Mosfellsbær er sjöunda stærsta sveitarfélag landsins. Íbúar voru 13.470 þann 1. febrúar síðastliðinn og hefur íbúafjöldinn ríflega tvöfaldast á tuttugu árum.
Mosfellsbær er ört vaxandi sveitarfélag og öll teikn á lofti um að sú þróun haldi áfram. Tölurnar segja okkur að vöxturinn er gífurlegur og íbúar finna fyrir fjölguninni á ýmsa vegu. Með auknum íbúafjölda eykst þjónustuþörfin á öllum sviðum, það er augljóst hverjum manni. Innviðir sveitarfélags þurfa því að fylgja fólksfjöldanum og eflast í takti við hann.

Hlutverk sveitarfélagsins
Meginhlutverk sveitarfélaga er að sjá um grunnþjónustu við íbúana. Umfangsmestu verkefnin eru fræðslu- og uppeldismál, velferðarmál, æskulýðs- og íþróttamál og skipulagsmál. Verksviðið er víðfeðmt og áskoranirnar margar ef gera á verkefnunum góð skil. Íbúar verða að hafa greiðan aðgang að upplýsingum um þjónustuna, réttindi sín og skyldur.

Anna Sigríður Guðnadóttir

Mikilvægt er að á íbúa sé hlustað og greitt, eins hratt og auðið er, úr öllum erindum sem berast stjórnsýslunni. Samkvæmt málefnasamningi meirihlutans á að vinna að því að stjórnkerfið og skipulag þess endurspegli umfang þeirrar þjónustu sem því er ætlað að veita. Þannig verði sjónum beint að því efla og auka þann mannauð sem býr í starfsfólki bæjarins í samræmi við aukinn íbúafjölda. Til að veita þjónustu þegar og þar sem hennar er þörf var ákveðið að fjölga um fimm stöðugildi í stjórnsýslunni og gert ráð fyrir þeirri aukningu inni í fjárhagsáætlun ársins 2023.
Um er að ræða eitt stöðugildi á fræðslusviði, til að koma til móts við börn sem þurfa á stuðningi að halda, og annað á velferðarsviði til að svara uppsafnaðri þjónustuþörf hjá fjölskyldum fatlaðra barna. Stafrænn fulltrúi var ráðinn til að halda utan um stafræna þróun stjórnsýslunnar til að efla þjónustu við bæjarbúa og auka hagkvæmni í rekstri.
Þá var ljóst að fjölga þyrfti á lögfræðisviði enda mörg og umfangsmikil lögfræðileg úrlausnarefni á borði stjórnsýslunnar. Aukinn vöxtur kallar líka á styrkingu í skipulagsmálum og þar höfum við einnig aukið við stöðugildi. Síðastliðið sumar var einnig skilgreint hlutverk aðgengisfulltrúa.

Verkefnin
Viðfangsefni síðustu níu mánaða eru mörg og stór. Að baki upplýstum ákvörðunum liggja margar vinnustundir sem oft eru ekki sýnilegar bæjarbúum. Eitt af þeim er öll sú vinna sem farið hefur í að koma Kvíslarskóla í gott horf. Að loknum þeim framkvæmdum munum við í raun eiga nýjan og endurbættan skóla sem svarar kröfum nútímans um kennslu- og námsaðstæður. Nýlega samþykkti bæjarráð að bjóða út byggingu leikskólans í Helgafellslandi eftir mikla rýnivinnu sem hafði í för með sér lækkun áætlaðs byggingarkostnaðar. Skipulag íþróttasvæðisins að Varmá er í skoðun í góðu samtali við Aftureldingu. Fyrsta verkefnið hefst í vor þegar nýr púði, nýtt gervigras og vökvunarbúnaður verður settur upp í stað eldra gervigrass.
Önnur stór verkefni eru m.a. rekstur Hlégarðs, úthlutun lóða í 5. áfanga Helgafellslands, innleiðing farsældarhringsins og verkefnisins barnvænt samfélag sem bæði verða til hagsbóta fyrir öll börn og fjölskyldur þeirra, framtíðarskipulag Skálatúns, og áskoranir varðandi verkefni byggðasamlaganna Sorpu og Strætó. Þá má nefna uppbyggingu í Blikastaðalandi sem er viðamikið verkefni sem unnið verður í áföngum og mun taka sinn tíma.
Gott sveitarfélag að okkar mati er sveitarfélag sem hlustar á íbúana, bregst tímanlega við þjónustuþörfum þeirra og byggir upp innviði á hagkvæman og skilvirkan hátt til hagsbóta fyrir okkur öll í nútíð og framtíð. Gott sveitarfélag styður við góðan bæjarbrag sem einkennist af virðingu, samheldni og tillitssemi við náungann.

Halla Karen Kristjánsdóttir formaður bæjarráðs
Anna Sigríður Guðnadóttir forseti bæjarstjórnar