35 ár frá stofnun Rauða­krossdeildar í bænum

Hulda Margrét Rútsdóttir

Hulda Margrét Rútsdóttir

Þann 6. október næstkomandi verða liðin 35 ár frá því stofnfundur Rauðakrossdeildar Kjósarsýslu var haldinn í Hlégarði.
Á fundinn mættu 42 aðilar sem samþykktu samhljóða tillögu Hilmars Sigurðssonar og Árna Pálssonar um stofnun Rauðakrossdeildar „fyrir Mosfellssveit, Kjalarnes- og Kjósarhreppa.“ Fyrstu stjórnina skipuðu þau Úlfur Þór Ragnarsson, Valgerður Sigurðardóttir (formaður), Sigríður Jóna Friðriksdóttir, Magnús Leópoldsson og Gísli Jónsson.
Á þessum 35 árum hafa verkefnin verið margvísleg og tekið mið af tíðarandanum hverju sinni en alltaf er leitast við að standa vörð um mannréttindi og virðingu einstaklinga. Á 30 ára afmæli deildarinnar árið 2012 breyttist nafn Kjósarsýsludeildar í Rauði krossinn í Mosfellsbæ en starfssvæði og starfsemi deildarinnar er það sama þótt nafninu hafi verið breytt.
Rauði kross Íslands er aðili að Alþjóðahreyfingu Rauða krossins og Rauða hálfmánans sem er stærsta mannúðarhreyfing veraldar. Hreyfingin byggir allt sitt starf á sameiginlegum grundvallarmarkmiðum um mannúð, hlutleysi, óhlutdrægni, sjálfstæði, einingu, sjálfboðið starf og alheimshreyfingu.
Meginhlutverk hreyfingarinnar er að bregðast við hvers konar neyð hvort heldur er af náttúru- eða mannavöldum og standa vörð um og aðstoða einstaklinga eða hópa sem verst eru staddir.
Rauði krossinn byggir að stærstum hluta á sjálfboðnu starfi og ber öllum sjálfboðaliðum og starfsmönnum að starfa í samræmi við markmið hreyfingarinnar. Rauði krossinn í Mosfellsbæ er ein af 42 Rauðakrossdeildum sem starfandi eru víðsvegar um landið.
Öflugt net sjálfboðaliða er styrkur félagsins. Rauði krossinn hefur langa reynslu af neyðaraðstoð jafnt innan lands sem utan og er mikilvægur hlekkur í almannavörnum Íslands. Félagið vinnur með íslenskum stjórnvöldum að mannúðarmálum og fylgir eftir grundvallaratriðum Genfarsamninganna gagnvart þeim. Rauði krossinn kannar reglulega hvaða þjóðfélagshópar eru verst staddir í íslensku samfélagi og bregst við niðurstöðunum með breyttum áherslum í starfinu.
Sunnudaginn 1. október frá klukkan 12-14 verður opið hús og kynning á starfi Rauða krossins í Mosfellsbæ í húsnæði deildarinnar, Þverholti 7. Það verður súpa og brauð á boðstólum og heitt á könnunni. Þar gefst upplagt tækifæri til þess að kynna sér verkefnin okkar og spjalla við sjálfboðaliða, stjórnarmeðlimi og starfsmann. Allir velkomnir.

Hulda Margrét Rútsdóttir
Verkefnastjóri hjá Rauða krossinum í Mosfellsbæ