Verkefnið Karlar í skúrum formlega stofnað

Finnur, Ólafur, Jón og Jónas ganga frá pappírum í Litluhlíð 7a.

Í byrjun þessa mánaðar var verkefnið Karlar í skúrum í Mosfellsbæ formlega stofnað sem félagsskapur með samþykkt laga fyrir félagið og kosningu stjórnar og eru stofnmeðlimir um 30 talsins.
Í stjórnina voru eftirtaldir kosnir: Jón Guðmundsson formaður, Jónas Sigurðsson ritari, Ólafur Guðmundsson gjaldkeri, Finnur Guðmundsson meðstjórnandi og Gústaf Guðmundsson meðstjórnandi.

Vettvangur fyrir handverk og samveru
Verkefnið Karlar í skúrum sækir fyrirmynd sína til Ástralíu og Írlands og hefur Rauði kross Íslands haft frumkvæði að stofnun slíkrar starfsemi hér á landi. Tilgangur starfsins er að auka lífsgæði félagsmanna, einkum eldri karlmanna, í gegnum handverk og samveru og vinna þannig gegn félagslegri einangrun og neikvæðum afleiðingum hennar og skapa karlmönnum vettvang til að hittast á þeirra eigin forsendum.
Undirbúningur þessa verkefnis hófst í febrúar sl. er nokkrir karlar hittust að frumkvæði Rauðakrossins og kosin var stjórn til undirbúnings starfsins. Kórónuveiran hefur seinkað öllu starfi en hægt var að halda nokkra fundi til undirbúnings á þeim tíma þegar veiran hafði hægt um sig hér á landi.

Framkvæmdir hafnar í Litluhlíð
Fyrsta verkefnið var að finna húsnæði til starfsins og tókst að fá húsnæði með tilstyrk Mosfellsbæjar. Húsnæðið er að Litluhlíð 7a, Skálatúni og eru þegar hafnar framkvæmdir við breytingu á húsnæðinu.
Næsta stóra verkefnið er að afla tækja fyrir starfið í Skúrnum með því að leita eftir styrkjum hjá einstaklingum og fyrirtækjum í bænum. Um leið og aðstæður í þjóðfélaginu breytast munu kaffi­spjallsfundirnir verða teknir upp að nýju í Skúrnum. Einnig hefur verið stofnuð Facebook-síðan „Karlar í skúrum Mosfellsbæ“.

— Þeir sem vilja komast í samband við karlana eða styrkja tækjakaup fyrir skúrinn geta haft samband við Jón í síma 893-6202 eða Jónas í síma 666-1040.