Úthlutun 15 lóða við Súluhöfða lokið

suluhofdilodir

Umsóknarfresti vegna úthlutunar 15 lóða við Súluhöfða lauk á miðnætti 31. október. Alls bárust umsóknir frá 27 umsækjendum. Lögmaður Mosfellsbæjar, skjalastjóri og persónuverndarfulltrúi opnuðu umsóknir sem borist höfðu í málakerfið bæjarins mánudaginn 4. nóvember í Helgafelli, fundarsal bæjarstjórnar Mosfellsbæjar.
Umsækjendum var boðið að vera viðstaddir opnun umsókna en ekki var á þeim fundi tilkynnt um nöfn umsækjenda né hæstbjóðendur í tilteknar lóðir heldur eingöngu tilboðin lesin upp.

Niðurstöður úthlutunarinnar voru kynntar þriðjudaginn 12. nóvember kl. 16:00 í Helgafelli. Meðalverð lóða nam rúmleg 21,4 m.kr. en lóðir neðan götu voru að mati tilboðsgjafa verðmætari. Þannig er meðalverð lóða neðan götu um 26,7 m.kr. en ofan götu er meðalverðið um 18 m.kr.
Fjórar af nítján lóðum við Súluhöfða voru ekki til úthlutunar að sinni þar sem þær liggja of nálægt golfvellinum. Þær lóðir sem um ræðir eru númer 43, 45, 47 og 36. Áður en þeim verður úthlutað þarf að taka ákvörðun um hvernig breyta skuli legu tveggja brauta golfvallarins. Gera má ráð fyrir því að sú ákvörðun liggi fyrir innan skamms og í kjölfarið verði unnt að úthluta þessum fjórum lóðum á grunni sömu úthlutunarskilmála og gilda um hinar fimmtán lóðirnar.