Uppbygging í Helgafellshverfi – fjölgun íbúða og stóraukin umferð

Á myndinni má sjá grófar útlínur 4. áfanga í Helgafellshverfi.

Á myndinni má sjá grófar útlínur 4. áfanga í Helgafellshverfi.

Stefán Ómar Jónsson

Stefán Ómar Jónsson

Gríðarmikil uppbygging hefur átt sér stað í Helgafellshverfi undanfarin ár. Hver byggingin á fætur annarri hefur risið í hverfinu og er breytingin mikil frá hruni þegar eitt fjölbýlishús stóð efst í landinu auk nokkurra stakra húsa.
Auk mikilla framkvæmda við uppbyggingu íbúðahúsnæðis í hverfinu er bygging Helgafellsskóla í fullum gangi og ráðgert er að hann hefji starfsemi í upphafi næsta árs.
Upphaflega var gert ráð fyrir rúmlega 1.000 íbúðum í Helgafellshverfi. Eftir hrun fór að lifna aftur yfir nýbyggingarframkvæmdum og hefur Mosfellsbær nú þegar samþykkt fjölgun íbúða um um það bil 150 samkvæmt yfirliti sem var lagt fram á 470. fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar þann 26. október síðastliðinn. Fjölgun íbúða í hverfinu frá fyrstu skipulagsáætlunum er því um 15%.
Senn líður að því að uppbygging á 4. áfanga í Helgafellshverfi hefjist. Íbúar í Helgafellshverfi kannast eflaust við þá miklu umferð sem hefur verið samfara uppbyggingunni; umferð vörubifreiða, steypubifreiða og alls kyns annarra bifreiða sem tengjast uppbyggingu í hverfinu beint.
Þegar framkvæmdir hefjast við 4. áfanga verður það ekki bara umferð bifreiða sem tengjast uppbyggingunni, heldur einnig umferð bifreiða þeirra fjölmörgu íbúa sem fluttir eru í Helgafellshverfi og einnig umferð bifreiða til og frá nýjum Helgafellsskóla sem staðsettur er í miðju hverfinu. Eins og þeir sem hverfið þekkja vita er enn sem komið er aðeins ein aðalleið inn og út úr Helgafellshverfi, um Álafossveg.
Það er því mjög brýnt að fundin verði önnur aðkoma fyrir umferð sem tengist uppbyggingu áfangans, þannig að sú umferð þurfi ekki að fara í gegum íbúðahverfið og framhjá nýjum skóla.

Stefán Ómar Jónsson
bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar
og aðalmaður í skipulagsnefnd