Umferðaröryggi í Leirvogstunguhverfi

Ásgeir Sveinsson

Í Leirvogstunguhverfi sem og í öðrum hverfum Mosfellsbæjar snýst umferðaröryggi að miklu leyti um hegðun íbúanna í umferðinni. Leirvogstunga er nýlegt hverfi í Mosfellsbæ og í meirihluta hverfisins er leyfilegur hámarkshraði 30 km. á klukkustund.
Að beiðni Mosfellsbæjar var Verkfræðistofan EFLA fengin til að meta umferðaröryggi í Leirvogstunguhverfi og samhliða því var íbúum hverfisins gefin kostur á að koma með ábendingar og athugasemdir varðandi umferð og umferðaröryggi í hverfinu.
Megin tilgangur vinnu þessarar var að taka sama ábendingar og athugasemdir sérfræðinga EFLU og íbúa um hvað megi bæta í umferðaröryggi hverfisins, hverju þurfi mögulega að breyta, hvernig þá og af hverju.

Íbúasamráð
Auglýst var á Facebook síðu Leirvogstunguhverfisins eftir ábendingum íbúa. Sérstakur hlekkur var á Facebook síðu þessari þar sem hægt var að merkja við staðsetningu og koma með athugasemdir og ábendingar varðandi hættulega staði með tilliti til umferðaröryggis.
Hlekkurinn var virkur í eina viku og alls bárust 134 athugasemdir. Samráð sem þetta við íbúa er mikilvægt til að ná sem bestu, hagkvæmustu og skilvirkustu niðurstöðu til að auka umferðaöryggi í hverfinu, því íbúar hverfisins þekkja það best hvað betur má fara.
Það er þakkarvert hve margar góðar ábendingar og athugasemdir bárust og verða þær allar skoðaðar.

Helga Jóhannesdóttir

Slysagreining
Samkvæmt slysagögnum Samgöngustofu voru 18 slys og óhöpp skráð í Leirvogstungu og Tunguvegi á árunum 2015 – 2019. Voru 17 þeirra óhöpp án meiðsla og eitt slys með litlum meiðslum.
Flest slysanna voru einslys, það er að segja slys þar sem einungis einn aðili átti hlut að slysinu. Einslysin voru meðal annars þegar ekið var á ljósastaur, vegrið og á ökutæki sem er lagt við hægri brún götu.
Í slysagreiningunni kemur til dæmis fram að töluvert sé ekið á bíla sem eru kyrrstæðir í bílastæðum við götukanta.
Nokkrir staðir í hverfinu vekja meiri athygli en aðrir út frá slysagreiningunni. Ber hér helst að nefna Laxatungu við gatnamót Leirvogstungu (austur tenging) og gatnamót Laxatungu og Kvíslartungu (suður tenging).

Umferðaröryggi í hverfinu
Ábendingar og athugasemdir bárust meðal annars frá íbúum varðandi lýsingu í hverfinu, varðandi mikinn hraða ökutækja, skertrar sjónlengdir, til dæmis vegna gróðurs sem nær út fyrir lóðamörk, skjólveggja og óhagstæðra legu vinkils götu.
Hraðatakmarkandi aðgerðir eins og hraðahindranir sem styðja 30 km. hraða eru nú þegar til staðar í hverfinu og bann­svæði hafa verið máluð á vissum stöðum til að lágmarka árekstrarhættu og hraða. En gera þarf betur og er til dæmis mælt með því í skýrslunni að kynna fyrir íbúum hættu sem myndast við gatnamót þar sem sjónlengdir eru skertar og þar sem gróður nær út fyrir lóðarmörk.

Skýrsla EFLU hefur verið kynnt í skipulagsnefnd og rædd í Bæjarstjórn Mosfellsbæjar auk þess sem skýrslan var birt á Facebook síðu Leirvogstunguhverfis. Umhverfissviði Mosfellsbæjar hefur nú verið falið að rýna niðurstöður skýrslunnar og verða tillögur íbúa og sérfræðinga EFLA nýttar til þess að auka enn frekar umferðaröryggi í Leirvogstunguhverfi.

Ásgeir Sveinsson, bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs og skipulagsnefndar Mosfellsbæjar.
Helga Jóhannesdóttir, nefndarmaður í skipulagsnefnd og varabæjarfulltrúi