Umferðarlög – breytingar um áramótin

Hreiðar Örn Zoega Stefánsson

Hreiðar Örn Zoega Stefánsson

Það hefur eflaust ekki farið framhjá Mosfellingum frekar en öðrum landsmönnum að eftir um 12 ára ferli þá munu ný umferðarlög taka gildi um áramótin. Margt nýtt er í lögunum sem vert er að taka eftir. Hér eru nokkur nýmæli.

Snjalltæki
Í lögunum eru ákvæði er varða snjalltæki og bann við notkun þeirra gert skýrt, jafnt fyrir ökumenn vélknúinna ökutækja sem og fyrir hjólreiðamenn.

Létt bifhjól
Létt bifhjól eru nú skráningar- og skoðunarskyld.

Ölvunarakstur
Í lögunum telst ökumaður ekki geta stjórnað ökutæki örugglega ef vínandamagn mælist 0,2‰ í blóði hans. Hlutlægu mörkin sem segja til um það hvort ökumaður geti stjórnað ökutæki örugglega eru því lækkuð úr 0,5‰ í 0,2‰.

Öryggisbelti í hópbifreiðum
Ekki er heimilt að veita undanþágu frá notkun öryggis- og verndarbúnaðar í hópbifreiðum í almenningsakstri í dreifbýli á vegum þar sem heimilt er að aka hraðar en 80 km á klst.

Akstur í hringtorgum
Sett eru sérstök ákvæði um akstur í hringtorgum. Þannig er lögfest að ökumaður í ytri hring skal veita þeim sem ekur í innri hring forgang út úr torginu. Þá skal ökumaður í hringtorgi, sem skipt er í tvær akreinar, velja hægri akrein (ytri hring), ætli hann að aka út úr hringtorginu á fyrstu gatnamótum.

Bannað að leggja bílum í botnlangagötu
Í lögunum er sérstaklega áréttað að ekki megi leggja í snúningssvæði í botnlangagötum.

Hjólreiðamaður skal gefa hljóðmerki
Í lögunum er kveðið á um að hjólreiðamaður skal gefa hljóðmerki þegar hann nálgast gangandi vegfarendur ef ætla má að þeir verði hans ekki varir.

Framhaldsskólar
Í umferðarlögunum er nú sérstaklega kveðið á um það að umferðarfræðsla skuli fara fram í framhaldsskólum. Ráðherra sem fer með fræðslumál ákveður að fenginni umsögn Samgöngustofu nánari tilhögun fræðslu og sveitarstjórnum ber að fræða almenning um þær sérreglur er gilda á hverjum stað.

Af þessum fáu punktum má sjá að það eru allmargar þarfar breytingar sem nú komast inn í lögin. Margar aðrar breytingar mætti hér kynna en best að að skoða lögin í heild sinni. Lögin er að finna á heimasíðu Alþingis. Umferðarlög nr. 77/2019.

Bestu jólakveðjur
Hreiðar Örn Zoëga Stefánsson
Ökukennari – 820 1616