Tilheyrði tveimur ólíkum heimum

hafdishuld

Hafdís Huld Þrastardóttir hefur starfað sem tónlistarmaður í 23 ár. Hún gekk til liðs við hljómsveitina GusGus á unga aldri en hún var einmitt að lesa undir samræmdu prófin þegar upptökur á fyrstu plötu þeirra hófust. Tónleikaferðalög um heiminn tóku svo við og sjóndeildarhringur hennar stækkaði svo um munaði.
Þessa dagana er hún að leggja lokahönd á sínu fimmtu sólóplötu sem hún ætlar að fylgja eftir með tónleikaferðalagi um Bretland.

Hafdís Huld er fædd í Reykjavík 22. maí 1979. Foreldrar hennar eru þau Júlíana Rannveig Einarsdóttir garðyrkjufræðingur og blómaskreytir og Þröstur Sigurðsson verktaki. Hafdís á tvö systkini, Eið Þorra f. 1982 og Telmu Huld f. 1984.

Söng þegar tækifæri gafst
„Ég er alin upp í sama hverfi og foreldrar mínir ólust upp, í vesturbæ Kópavogs út á Kársnesinu. Ég átti ömmur og afa í hverfinu og mikið af skyldfólki. Hverfið var mjög barnvænt og það var alltaf fullt af krökkum til að leika við.
Ég gekk í Kársnesskóla og svo Þinghólsskóla og mér þótti alltaf gaman að læra. Ég held ennþá sambandi við æskuvinkonur mínar og minni bestu vinkonu, Brynju, kynntist ég í 6 ára bekk.
Í æsku var ég syngjandi hvar sem tækifæri gafst, ég held að það hafi ekki komið neinum á óvart þegar ég fór að starfa við tónlist,“ segir Hafdís Huld og brosir.

Gerði alþjóðlegan plötusamning
Eftir útskrift úr gagnfræðaskóla fór Hafdís Huld í Menntaskólann í Kópavogi. Það sama ár gerði hún alþjóðlegan plötusamning með hljómsveitinni GusGus og 17 ára fór hún og ferðaðist um heiminn með hljómsveitinni við tónleikahald. Hún er yngsti Íslendingurinn til að gera plötusamning erlendis svo vitað sé til.
„Ég var mjög heppin að foreldrar mínir treystu mér til þess að takast á við þetta verkefni en þau hafa alltaf stutt við bakið á mér og hafa haft mikla trú á mér. Á þriggja ára tímabili fór ég þrisvar í stór tónleikaferðalög um Bandaríkin og fjórum sinnum til Evrópu auk þess að koma fram á tónlistarhátíðum þess á milli.
Ég kom til ótrúlega margra landa á þessum tíma en finnst samt eins og ég hafi séð frekar lítið af hverjum stað. Dagarnir fóru að mestu í viðtöl, upptökur fyrir fjölmiðla og svo undirbúning fyrir tónleika kvöldsins.“

Kynntist ólíkum heimum
„Við sváfum í stórri hljómsveitarrútu og oft var það nú þannig að þegar maður sofnaði að kvöldi þá vaknaði maður daginn eftir í nýrri borg eða öðru landi þar sem sama rútínan hófst.
Á þessum tíma leið mér stundum eins og ég tilheyrði tveimur ólíkum heimum, ég spilaði kannski fyrir mörg þúsund manns á kvöldi, mætti í upptöku hjá MTV, fór til Mexíkó þar sem ég sá bikiníið mitt innrammað uppi á vegg á Hard Rock Cafe en var svo tveimur dögum síðar mætt upp í MK að taka jólapróf í stærðfræði.“

Flutti til London
Hafdís Huld flutti til London þegar hún var tvítug og fór að vinna sem gestasöngkona og höfundur með hinum ýmsu listamönnum eins og bresku sveitinni FC Kahuna og Tricky í samstarfi við Big Dipper umboðsskrifstofuna. Þegar því samstarfi lauk fór hún og ferðaðist með sinni eigin hljómsveit. Hún hefur spilað á mörg hundruð tónleikum í Evrópu, Bandaríkjunum og Kína.
„Ég stundaði framhaldsnám í söng og tónsmíðum við London College of Creative Media og útskrifaðist þaðan árið 2006. Eftir útskrift gaf ég út mína fyrstu sólóplötu og hef starfað sem sólólistamaður síðan.“

Kynntust í tónlistarnámi
Eiginmaður Hafdísar Huldar er breskur, heitir Alisdair Wright og er tónlistarmaður og myndskreytir. Þau kynntust er þau sóttu sama skóla í Bretlandi. Þau eiga eina dóttur, Arabellu Iðunni 6 ára. Þau hafa komið sér vel fyrir í Mosfellsdalnum og líkar vel þar.
„Ég kynntist Alisdair í náminu mínu, hann hefur síðan verið minn helsti samstarfsmaður í tónlistinni. Við höfum ferðast víða um heiminn við tónleikahald og höfum komið fram saman á tónlistarhátíðum og útvarps- og sjónvarpsþáttum.“

Fundu bleika húsið í Dalnum
„Við vorum meira og minna á ferðalagi til ársins 2012 eða alveg þangað til við eignuðumst dóttur okkar það sama ár. Þá tókum við meðvitaða ákvörðun um að spila á færri tónleikum og höfum tekið að okkur fleiri tónsmíðaverkefni og stúdíóvinnu undanfarin ár, meðal annars fyrir Bucks Music og BBC.
Þegar við förum svo að spila þá erum við ótrúlega heppin að eiga góða að því það er alltaf einhver til í að koma með og passa Arabellu á tónleikaferðum, enda er hún alveg dásamleg.
Það var alltaf draumur okkar að finna okkur hús þar sem við værum umkringd fjöllum og þar sem við gætum verið með okkar eigið stúdíó heima við og sá draumur rættist þegar við fundum bleika húsið í Mosfellsdalnum.“

Á leið í tónleikaferðalag
Hafdís Huld hefur gefið út fjórar plötur alþjóðlega og svo barnaplöturnar Vögguvísur og Barnavísur sem notið hafa mikilla vinsælda hérlendis. Í þessum mánuði er fimmta plata hennar væntanleg en hún er gefin út á vegum breska fyrirtækisins Redgrape Music. Hjónin eru á leið í tónleika- og kynningarferð til Bretlands til þess að fagna útgáfu hennar. Platan er jafnframt sú fyrsta þar sem Hafdís syngur lög eftir aðra eins og t.d. Tinu Turner og Queen.
„Eftir áramót förum við til Kanada, við vorum svo heppin að vera valin úr hópi mörg hundruð umsækjanda til þess að koma fram á þjóðlagahátíðinni Folk Alliance International 2019 í Montreal. Svo höldum við áfram að kynna nýju plötuna með tónleikahaldi svo það má segja að það séu virkilega spennandi tímar framundan.”

Mosfellingurinn 8. nóvember 2018
Myndir og texti: Ruth Örnólfs