Þurfum stundum að finna upp hjólið

emil_mosfellingurinn

Emil Pétursson húsasmíðameistari hefur fengist við að smíða leikmyndir fyrir sviðsverk og kvikmyndir í þrjá áratugi.

Emil Pétursson og starfsfólk hans á Verkstæðinu ehf. sérhæfa sig í að hanna og smíða leikmyndir fyrir kvikmyndir, leikhús, auglýsingar, sjónvarpsþætti og söfn auk annarra viðburða. Þau taka einnig að sér að gera upp gömul hús, innrétta verslanir og veitingastaði og sjá um smíði á hinum ýmsu skúlptúrum.
Fyrirtækið var stofnað árið 2008 og er í 900 fermetra húsnæði að Völuteigi í Mosfellsbæ. Þar inni er járnsmiðja, trésmíðaverkstæði og málningaraðstaða enda eru verkefnin sem þau útfæra ansi margvísleg.

Emil er fæddur í Reykjavík 18. septem­ber 1968. Foreldrar hans eru þau Guðbjörg Emils­dóttir kennari og Pétur Karl Sigurbjörnsson rafmagnstæknifræðingur.
Emil á tvær systur, Kristínu f. 1971 og Maríu f. 1972.

Póstkortið barst ekki í tæka tíð
„Fyrstu þrjú æviár mín bjó ég á Egilsstöðum þaðan sem pabbi er ættaður en eftir það bjuggum við í Kópavoginum með tveggja og hálfs árs stoppi í Danmörku þar sem foreldrar mínir fóru í nám. Ég var átta ára þegar við fluttum út en foreldrar mínir fluttu á undan mér en ég átti svo að koma í flugi með afa og ömmu og móðursystur minni. Það var búið að senda þeim póstkort um hvenær væri von á okkur.
Þegar við lentum þá fóru þau með mig yfir í aðra flugvél sem átti að fljúga yfir til Billund en sjálf ætluðu þau áfram til Svíþjóðar. Ég var í fylgd flugfreyju og fékk þennan líka fína miða um hálsinn með nafninu mínu á.
Þegar við lentum í Billund þá kom enginn að sækja mig. Ég sat ofan á ferðatöskunni minni með bangsann í fanginu og horfði á fólkið sem var að reyna að hafa upp á foreldrum mínum. Það kom svo í ljós að póstkortið hafði ekki borist til þeirra í tæka tíð og þau höfðu ekki hugmynd um að ég væri á leiðinni en allt bjargaðist þetta nú,“ segir Emil og brosir.

Kristnihald undir jökli
Emil gekk í Digranesskóla og Víghólaskóla en fór síðan í Fjölbrautaskólann í Breiðholti að læra húsasmíði. Þaðan fór hann beint í Meistaraskólann í Hafnarfirði og var orðin húsasmíðameistari 22 ára gamall.
„Í FB kynnist ég góðum vini, Högna Fróðasyni frá Dalsgarði í Mosfellsdal, og hefur vinskapur okkar haldið alla tíð. Við unnum saman á okkar yngri árum, í garðyrkju, uppskipun á salti og við smíðar. Á þessum tíma kynnist ég mörgu fólki í Dalnum og urðu þau kynni m.a. til þess að ég fór að vinna í minni fyrstu bíómynd, Kristnihald undir jökli, fyrir Kvikmyndafélagið Umba sem var virkilega gaman að fá að taka þátt í.“

Smíðuðu leikmyndir fyrir Latabæ
Emil stofnaði ásamt vini sínum fyrirtækið Meistaraverk árið 1995. Þeir félagar voru í því að byggja hús og selja en enduðu oftast í einhverju listrænum verkefnum eins og fyrir bíómyndir og sjónvarpsþætti.
„Einn daginn árið 2001 hringdi Magnús Scheving í mig, hann var eitthvað að vesenast með einhvern sjónvarpsþátt sem hann vildi gera. Vantaði einn stól fyrir brúðu og einn vegg sem við gerðum fyrir hann en veggurinn varð síðan þungamiðjan í öllum þáttunum. Þannig hófst samstarf okkar við Latabæjarævintýrið og við smíðuðum leikmyndir fyrir Latabæ allt til ársins 2006 en þá skildu leiðir okkar félaganna en ég hélt áfram störfum þar til framleiðslu var hætt.“

Fluttu í Mosfellsdalinn
Emil kynntist eiginkonu sinni Ólafíu Bjarnadóttur fjármálastjóra árið 2005. Þau eiga tvær dætur, Emilíu Rán f. 2007 og Rakel Ylfu f. 2009. Fyrir átti Emil synina Pétur Axel f. 1995 og Úlf f. 1996 með fyrrverandi sambýliskonu sinni.
Árið 2006 fluttu Emil og Ólafía saman að Lækjarnesi í Mosfellsdal sem þá var lítill sumarbústaður. Þau fengu leyfi til að byggja hús á landinu og eru nú á lokametrunum við að klára það. Þau segjast ansi heimakær enda sé nóg að gera með hænur, svín, hesta, hunda og ketti.

Starfið er fjölbreytt og skemmtilegt
Þau hjónin stofnuðu fyrirtækið Verkstæðið ehf. árið 2008 og þar starfa þau bæði og eru með átta manns í vinnu.
„Við vorum fyrst til húsa í gömlu kartöflugeymslunum í Ártúnsbrekku en árið 2015 keyptum við húsnæði í Mosfellsbæ og gerum út þaðan í dag. Við erum orðin nokkuð tæknivædd, við notum laserskurðartæki, 3D skönnum hluti og gerum eftirmyndir með stórum tölvufræsara. Einnig notum við siliconefni til mótagerðar sem við flytjum inn sjálf.
Starfið er vissulega fjölbreytt og skemmtilegt,“ segir Emil „en það getur líka verið erfitt og streituvaldandi enda þurfum við oft að finna upp hjólið og höfum bara stuttan tímaramma til að leysa verkefnin.“

Settum bátinn á hvolf í höfninni
Undanfarin ár hafa mörg verkefna þeirra verið fyrir stórmyndir frá Hollywood og hafa verkefnin oft verið ansi snúin. Þau hafa verið að vinna við myndir eins og Interstellar, The Secret Life of Walter Mitty, Star Wars, Contraband og íslensku myndirnar Djúpið og Málmhaus.
Ég spyr Emil hvað sé eftirminnilegast af þeim verkefnum sem þau hafa tekið að sér?
„Ætli það sé ekki þegar við vorum að vinna í Djúpinu í kvikmynd Baltasars Kormáks. Við sáum um að taka 80 tonna eikarbát og setja hann á hvolf í höfninni í Helguvík. Þetta var mjög óvenjulegt því algengara er að reynt sé að snúa skipum í hina áttina en þetta var skemmtilegt verkefni.“

Ævintýri á Atlantshafi
Þegar Emil er ekki að smíða þá siglir hann um á skútum ásamt félögum sínum en hann hefur stundað kappsiglingar frá árinu 1990 og er margfaldur Íslandsmeistari. Þeir félagar hafa átt fjórar mismunandi skútur, 26, 38 og 42 feta en sigla núna um á 26 feta skútu sem ber nafnið Besta.
Emil hefur siglt þrisvar sinnum yfir Atlantshafið og veit ekkert skemmtilegra. Ég spyr hann hvort hann hafi komist í hann krappann? „Já, við fengum brot aftan á okkur að nóttu til sunnan við Írland. Ég heyrði eitthvað fyrir aftan bátinn og sá svo hvítan vegg hátt fyrir ofan hann. Ég stóð upp og reyndi að loka lúgunni en endaði í fanginu á Úlfi vini mínum og lá þar á meðan brotið gekk yfir. Maður getur alltaf átt von á einhverju í svona ferðum því það eru ekki alltaf jólin,“ segir Emil að lokum.

Mosfellingurinn 5. desember2019
ruth@mosfellingur.is