Það er þörf fyrir jafnaðarflokk

Árni Páll Árnason

Árni Páll Árnason

Í aðdraganda þessara kosninga er að sjá miklar fylgissveiflur og umrót.
Flest bendir til að núverandi stjórnarflokkar missi meirihluta sinn í næstu kosningum og að líklega verði meira en helmingur þingmanna nýir. Það er mikilvægt hafa við þær aðstæður rótgróinn og reynslumikinn umbótaflokk sem byggir á 100 ára sögu samfélagsumbóta og vill breytingar, en hefur líka reynslu af því að koma breytingum í gegn – og líka stundum af því að ná þeim ekki í gegn. Samfylkingin er þannig flokkur.
Við vitum hvernig á að koma málum áfram og vitum líka á hverju góður umbótahugur getur strandað. Og það sem mestu skiptir er að við höfum alltaf sett almannahagsmuni framar sérhagsmunum í öllum okkar verkum. Við erum stolt af okkar arfleifð og erum alltaf jafnaðarmenn – ekki bara fyrir kosningar.

Til að sýna fram á þetta vil ég nefna eina dæmisögu: Þegar ég kom á minn fyrsta kosningafund í Mosfellsbæ fyrir kosningarnar 2007 var það mér áfall að heyra að aldraðir íbúar Mosfellsbæjar væru fluttir hreppaflutningum norður á Dalvík eða austur á Kirkjubæjarklaustur á öldrunarstofnanir, því ekkert hjúkrunarheimili væri í bænum. Þegar ég settist í stól félagsmálaráðherra vorið 2009 var það mér forgangsverkefni að koma framkvæmdum við byggingu hjúkrunarheimila af stað, en ekkert fé var til í ríkissjóði.
Til að leysa það mál stóð ég fyrir lagabreytingum sem tryggðu að Íbúðalánasjóður gæti fjármagnað 100% lán til slíkra bygginga. Það varð að veruleika og bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ tóku þann bolta og fóru strax af stað í uppbyggingu á hjúkrunarheimilinu Hömrum. Það stendur í dag sem frábær minnisvarði um að það er hægt að gera góða hluti þótt illa ári og það er hægt að setja mannbótarverkefni í forgang á erfiðum tímum.
En þessi saga sýnir líka að það skiptir á endanum öllu máli að hafa stjórnmálaafl við landsstjórnina sem finnur færa leið. Þess vegna bið ég ykkur um að setja krossinn við S í kosningunum 29. október.

Árni Páll Árnason
Höfundur skipar 1. sæti á lista
Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi.