Stekkjarflötin

stekkjarflot

Við „týndum“ yngsta syni okkar í gær. Eða þannig. Hann stökk út úr húsi um miðjan dag, hafði verið að leika inni með vini sínum. Kallaði til okkar að þeir væru farnir út að hjóla. Allt í góðu lagi með það. En svo fór okkur að lengja eftir þeim vinunum. Þeir höfðu ekkert gefið upp um hvert leið lægi eða hvað þeir ætluðu að vera lengi.

Skipulagður var leitarflokkur, við keyrðum um hverfið, löbbuðum um nágrennið og heyrðum í foreldrum vina. Það skilaði litlu. Ég hjólaði síðan nokkrar leiðir sem ég hef hjólað með þeim týnda. Ég fann hann að lokum, skælbrosandi og glaðan, hoppandi á ærslabelgnum á Stekkjarflötinni. Þarna var frábær stemning, seinni partinn á sunnudegi. Fullt af krökkum að leika sér í bland við fjölskyldur með minni börn. Allir í góðum fíling.

Það var ótrúlega gaman að upplifa þetta, þessa góðu orku. Og mig langar að hrósa bæjaryfirvöldum fyrir að koma á fót lýðræðisverkefninu „Okkar Mosó“ en ærslabelgurinn vinsæli er einmitt tilkominn á Stekkjarflöt vegna þess að við, íbúar bæjarins, kusum hann þangað.

Það er frábært að við fáum að taka þátt í að skapa umhverfi okkar í beinum kosningum og enn betra að það sem verður ofan á í kosningunum sé notað svona mikið. Ég held að skíða- og brettaleiksvæðið í Ullarnesbrekku sem fékk líka góða kosningu verði tilbúið í vetur, hlakka sjálfur mikið til að prófa það.

En aftur að týnt og fundið sögunni, við feðgar tókum rólegt og gott spjall um mikilvægi upplýsingagjafar og hjóluðum svo saman heim. Hann hafði gjörsamlega týnt tímanum, það hafði verið svo gaman hjá þeim vinum að hjóla, stússast og svo hoppa á belgnum. Og er það ekki akkúrat það sem við erum alltaf að kalla eftir, að börnin okkar séu glöð úti að leika sér með vinum sínum.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 12. september 2019