Skólabörn í Mosfellsbæ með skólavörur frá Múlalundi

Carlos, Óli og Listapúkinn  framleiða möppur á Múlalundi.

Carlos, Óli og Listapúkinn framleiða möppur á Múlalundi.

Mosfellsbær er í hópi 10 sveitarfélaga sem hafa tekið þá góðu ákvörðun að allar möppur og plastvasar sem notuð verða í grunnskólum sveitarfélaganna næsta vetur verði framleidd innanlands, á Múlalundi vinnustofu SÍBS, í stað þess að vera flutt inn frá útlöndum.
Alls er um að ræða 40 þúsund möppur og 20 þúsund plastvasa fyrir 10 þúsund nemendur um allt land.
Þessi ákvörðun hefur margt jákvætt í för með sér, að sögn Sigurðar Viktors framkvæmdastjóra Múlalundar. „Hún skapar hundruð klukkustunda vinnu fyrir fólk með skerta starfsorku. Nú þegar höfum við bætt við okkur einstaklingum sem annars hefðu verið án vinnu. Þar af er einmitt einn Mosfellingur sem nú hefur fengið varanlegt starf hjá okkur.
Við áætlum að möppurnar okkar endist í 3-5 ár sem dregur úr plastnotkun sveitarfélagnna um allt að 6 tonn. Þetta eru einungis nokkrir kostir þess að velja íslenska framleiðslu og þar að auki úr heimabyggð.“
Starfsfólk Múlalundar vinnustofu SÍBS vill koma á framfæri þakklæti til sveitarfélaganna tíu sem ákveðið hafa að nýta vörurnar frá Múlalundi í sínu skólastarfi. Mosfellingar eru hvattir til að kíkja við í verslun Múlalundar eða á vefverslunina á mulalundur.is.