Seljadalsnáma eða ekki?

Margrét Guðjónsdóttir

Hvar er Seljadalsnáma? Hún er í Þormóðsdal skammt fyrir ofan Hafravatn. Náman var starfrækt frá 1985 til 2016 samkvæmt samningi Mosfellsbæjar sem landeiganda og Reykjavíkurborgar f.h. Malbikunarstöðvar borgarinnar. Malbikunarstöðin vann steinefni úr námunni til að nota í malbik.
Til að hefja að nýju efnistöku úr námunni þarf að fara fram mat á umhverfisáhrifum.

Þetta hefur helst gerst eftir 2016:
Júní 2017 Bæjarráð Mosfellsbæjar samþykkir að heimila umhverfissviði bæjarins að hefja vinnu við gerð matsáætlunar (mat á umhverfisáhrifum) vegna Seljadalsnámu.
Júlí 2020 Skipulagsnefnd: Lögð voru fram til kynningar drög að tillögu að mats­áætlun (mat á umhverfisáhrifum) fyrir efnistöku í Seljadalsnámu sem unnin er af verkfræðistofunni Eflu dags. 29. júní 2020.
Sept. 2020 Skipulagsnefnd: Lögð voru fram til afgreiðslu drög að tillögu að matsáætlun (mati á umhverfisáhrifum) er senda skal Skipulagsstofnun.

Stefán Ómar Jónsson

Skipulagsstofnun fær tillöguna nú til athugunar og mun stofnunin skoða hvort tillagan uppfylli formsatriði og auglýsir hana að óbreyttu. Í því auglýsingaferli fá hagsmunaaðilar og almenningur tækifæri til að koma að athugasemdum sínum.

Það er fyrst þegar öll þessi formsatriði eru að baki, sem hér eru í grófum dráttum tíunduð, að Mosfellsbær tekur afstöðu til þess hvort opna eigi Seljadalsnámu að nýju eða ekki.
Vinir Mosfellsbæjar áttu ekki aðild að bæjarstórn Mosfellsbæjar þegar ákvörðun var tekin um að hefja það ferli sem lýst er hér að ofan. Fulltrúar Vina Mosfellsbæjar í skipulagsnefnd sátu hjá við afgreiðslu skipulagsnefndar í júlí og september sl. en munu taka afstöðu þegar og ef, til þess kemur að tillaga um opnun námunnar kemur fram. Afstaða Vina Mosfellsbæjar verður þá byggð á lokaniðurstöðu skýrslu um matsáætlun, þeim athugasemdum sem komið hafa fram og munu ef til vill koma fram á síðari stigum.
Að mörgu er að hyggja áður en svo stór ákvörðun kann að verða tekin. Náttúran og nærumhverfi íbúa í Mosfellsbæ skipta þar máli.
Sjá má drög að tillögu að matsáætlun:
https://www.efla.is/media/umhverfismat/Seljadalsnama-Drog-ad-kynningu-29.07.2020.pdf

Margrét Guðjónsdóttir varabæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar
Stefán Ómar Jónsson bæjarfulltrúi Vina Mosfellsbæjar