Reykjafellið

heilsumolar20okt

Við fjölskyldan gengum á Reykjafellið um síðustu helgi. Sá fimm ára var tregur af stað, mjög þreyttur í fótunum til að byrja með og fór hægt yfir. Vildi helst fara þetta á háhesti. Nota okkur hin sem hesta. Ekki óskynsamlegt og vel þess virði fyrir hann að reyna að létta sér lífið. En við gáfumst ekki upp, þetta átti að vera holl hreyfing fyrir alla. Við mjökuðumst áfram á þolinmæðinni, tókum kvörtunum hans með stakri ró og yfirvegun og beittum síðan sama bragði á hann og við höfum gert með eldri bræður hans. Nefnilega að leyfa honum að leiða hópinn. Vera fyrstur. Það breytir öllu þegar maður er fimm ára. Forystu­sauðir verða ekki þreyttir. Þeir eru of uppteknir við að finna bestu leiðina fyrir hópinn sinn.

Þetta virkaði, alveg eins og með bræðurna. Svo vel að þegar við vorum komin upp að vörðunni, þá vildi okkar maður alls ekki fara til baka. Leið fantavel eftir þessa sigurgöngu og var ánægður með sjálfan sig og lífið. Á endanum fórum við nú samt niður. Klifruðum yfir Raggarétt við rætur Reykfellsins og hittum skemmtilega fjölskyldu sem sagði okkur fréttir af hundasamfélagi Mosfellsbæjar. Við tókum eina upphífingu á grein trés sem stendur keikt við litla brú yfir Varmá og röltum svo heim eftir skógarstígnum.

Stígurinn sem var gerður upp í sumar er nú horfinn að hluta til eftir vatnavextina í síðustu viku. Þetta er svo vinsæl gönguleið að bæjaryfirvöld verða örugglega snögg að koma honum aftur í lag. Við enduðum þennan góða og gefandi göngutúr á því að ég og sá bráðum 14 ára kepptum í brekkuspretti. Í mínum huga er ekki spurning hver vann þann sprett, hvað sem hver segir þá var ekkert talað um fyrir keppnina að það mætti ekki toga í andstæðinginn í miðjum spretti. Nýtum umhverfið og njótum lífsins!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 20. október 2016