Ögraðu þér

Ég er búinn að lesa þrjá pistla um nýja árið, skrifaða af þekktum pennum Fréttablaðsins og Moggans. Allir pistlarnir snúast um þá algengu hjarðhegðun okkar Íslendinga að rífa sig í gang eftir allsnægtadesember þegar lífið snýst um að njóta og leyfa sér allar mögulegar og ómögulegar freistingar, sérstaklega þær sem hafa eitthvað með mat og drykk að gera.

Einn pistlahöfundurinn, ekki sá léttasti en skemmtilega kaldhæðinn og launfyndinn penni, gerir grín að veganúar og um leið þeirri staðreynd að flestir gefast upp á matar- og hreyfingarátaki áður en janúar er liðinni. Annar pistlahöfundur segist vera hætt að reyna að nota byrjun nýs árs í að skafa af sér þau fimm kíló sem hún bætir alltaf á sig í desember. Ætlar núna að fara sátt og sæl inn í nýja árið, fimm kílóum þyngri. Sá þriðji segir að allt snúist alltaf um mat á Íslandi, að svoleiðis þurfi það ekki að vera, en hann ætli samt ekki að standast freistingar eins og feitar kótilettur þegar þær bjóðast honum.

Ég held að þessir pistlar hafi átt að vera hvetjandi og kannski eru þeir það fyrir einhverja. Ég les úr þeim uppgjafarskilaboð. Hættið að reyna. Hættið að reyna að lifa heilbrigðu og lífi. Hættið að reyna að breyta og bæta. Gefist upp fyrir öllum freistinginum og gefið skít í afleiðingarnar. Leyfið ykkur að þyngjast ár eftir ár, leyfið ykkur að verða oftar veik og viðkvæmari fyrir sjúkdómum, leyfið ykkur að vera þreytt og hætta að geta hluti, leyfið ykkur allt sem ykkur langar í.

Ég er hinsvegar sammála pistlahöfundum um að brjálæðisátak í janúar (og svo aftur eftir sumarsukkið í september) skilar sjaldnast langtímaárangri. Hvað þá, hver er leiðin? Hún er einföld, borðaðu hollt og gott – ekki of mikið – allt árið. Hættu að borða óhollt sama hvaða mánuður er. Málið leyst.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 9. janúar 2020