Mosó kemur vel út í könnun Gallup
Gallup kannar árlega þjónustu sveitarfélaga og mælir þannig viðhorf íbúa til þjónustu í 19 stærstu sveitarfélögum landsins. Að venju er Mosfellsbær í efstu sætum og yfir landsmeðaltali utan eins málaflokks.
Á árinu 2018 var Mosfellsbær í þriðja sæti þegar lagt er mat á sveitarfélagið sem stað til að búa á og reyndust 91% aðspurðra frekar eða mjög ánægðir með Mosfellsbæ sem stað til að búa á.
Mosfellsbær er vel yfir landsmeðaltali í níu málaflokkum af tólf, á pari í tveimur málaflokkum en undir landsmeðaltali í einum málaflokki. Sá málaflokkur er aðstaða til íþróttaiðkunar sem dalar milli ára. Í fyrra voru 77% íbúa frekar eða mjög ánægðir með aðstöðu til íþróttaiðkunar en 84% íbúa í Mosfellsbæ voru ánægðir með aðstöðu til íþróttaiðkunar árið 2017.
Þá niðurstöðu þarf væntanlega að rýna og nýta til þess að gera enn betur á nýju ári. Nú standa yfir miklar framkvæmdir á sviði íþróttamannvirkja hjá Mosfellsbæ þar sem er annars vegar bygging fjölnota íþróttahúss og hins vegar endurnýjun gólfa í sölum Varmár.
Mosfellsbær í fremstu röð
Spurðir um afstöðu til þjónustu Mosfellsbæjar í heild reyndust 82% mjög eða frekar ánægð en á milli ára hækkar Mosfellsbær í þremur málaflokkum en lækkar í tveimur.
Ánægja vex milli ára á sviði leikskólamála, grunnskólamála og því hversu vel íbúum þykir starfsfólk bæjarins hafa leyst úr erindum þeirra. Það dregur hins vegar úr ánægju milli ára á sviði aðstöðu til íþróttaiðkunar og hvernig sveitarfélagið sinnir menningarmálum.
Ánægjuleg tíðindi
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri segist um margt ánægður með útkomuna og að könnun Gallup sé á hverjum tíma hluti af þeim gögnum sem nýtt eru til þess að vinna að umbótum í starfsemi Mosfellsbæjar.
„Það sem er ánægjulegt er að á heildina litið eru Mosfellingar mjög ánægðir með bæinn sinn. Við höfum alltaf verið í einu af þremur efstu sætunum þegar spurt er um Mosfellsbæ sem stað til að búa á og ég er nú sem fyrr stoltur af því.
Íbúafjölgun síðustu tveggja ára er mikil og að mínu mati eru það frábær tíðindi að okkar flotta starfsfólki hafi tekist að taka á móti um 1.000 nýjum íbúum tvö ár í röð og haldið áfram að veita íbúum framúrskarandi þjónustu.
Það er gott að sjá að ánægja með þjónustu grunnskóla og leikskóla eykst á milli ára og það sama gildir um það hversu vel íbúum þykir starfsfólk bæjarins hafa leyst úr erindum þeirra.
Eins og ávallt þá er svigrúm til að gera betur og ég vil huga vel að þeim þáttum sem koma síður út í könnuninni eða rísa hægar en metnaður okkar stendur til og vinna markvisst að umbótum á þeim sviðum.“
—–
Heildarúrtak í könnuninni er 9.861 manns, þar af 420 svör úr Mosfellsbæ. Nánari upplýsingar má finna á slóðinni mos.is/gallup2018.