Menntamálin í forgang

varmagreinÞað dylst engum sem fylgist með fréttum að grunnstoðum menntunar er ábótavant en brýnasti vandinn er þó að mati flestra of mikið álag á kennara og skortur á úrræðum fyrir börn sem þurfa stuðning.
Sveitarfélög hafa verið að bregðast við og margt að gerast í skólamálum í Reykjavík og Hafnarfirði þar sem áhersla er lögð á snemmtæka íhlutun, markvisst samstarf fagaðila milli sviða, aukna stoðþjónustu og bættan aðbúnað.
Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga kalla áhugasamir foreldrar barna í Varmárskóla eftir stefnu flokkanna í menntamálum.
Í skýrslum um uppbyggingu skólahverfa og byggingu nýrra skóla í Mosfellsbæ 2013-2014 kemur fram að æskilegur fjöldi nemenda í hverjum skóla séu 550-600 börn og gæta verði að því að Varmárskóli verði ekki 1000 barna skóli. Niðurstöður Leithwood og Jantzi (2009) sem skoðuðu niðurstöður 57 rannsókna sýna að hagkvæmasta rekstrarstærð grunnskóla, að teknu tilliti til árangurs og ánægju nemenda, er um 500 nemendur ef samfélagsstaða þeirra er svipuð. Í Varmárskóla eru nú tæplega 900 nemendur. Álag á kennara og börn hefur aukist, úrræði eru takmörkuð og námsárangur undir væntingum. Næsta haust er gert ráð fyrir um 1.000 börnum og þótt Helgafellsskóli verði tekinn í notkun áramótin 2018/2019 mun nemendafjöldi í Varmárskóla vera áfram langt umfram það sem telst ákjósanlegt næstu árin. Niðurstöður Rannsókna og greininga á högum og líðan ungs fólks í Mosfellsbæ undanfarin misseri sýna vaxandi kvíða og vanlíðan hjá börnunum sem rýna þarf betur í. Mikilvægt er að bregðast við því sem betur má fara og setja fram aðgerðaáætlun þar sem andleg líðan barnanna er í forgrunni.
Í Varmárskóla er að finna mikinn mannauð meðal kennara. Mikilvægt er að skapa eftirsóknarverðar starfsaðstæður sem styðja við þá og hvetja í starfi og skoða sérstaklega álag vegna þeirra vaxtaverkja sem skólinn glímir við. Þá þarf að gera skólanum kleift að fylgja eftir þeim þjóðfélagsbreytingum sem framundan eru en sérfræðingar á sviði upplýsingatækni telja að á næstu 5 árum verði meiri tækniframfarir en hafa verið síðustu 20 árin. Í stefnu bæjaryfirvalda er talað um að grunnskólar Mosfellsbæjar verði í fremstu röð á sviði upplýsinga- og tæknimála en hvernig og hvenær komumst við þangað?
Í skólastefnu Mosfellsbæjar er að finna allt sem þarf til að gera skólana okkar þá bestu á landsvísu en við þurfum að spýta í lófana og setja menntun og líðan barnanna í forgang. Í skólastefnunni segir: „…Einstaklingurinn er í öndvegi og á skólastarfið að taka mið af þörfum hans, félagslegum aðstæðum og umhverfi. Mosfellsbær leggur áherslu á að vel sé að börnum bæjarins búið, bæði andlega og líkamlega, svo þau fái notið bernsku sinnar. Umhverfi barna taki mið af þroska hvers og eins, jafnframt sé tekið tillit til bakgrunns og einstaklingsþarfa og hugmynda um skóla fyrir alla. Skólastarf á að vera sveigjanlegt og laða fram hæfileika allra nemenda með markvissum hætti því öll börn eru einstök og sérstök…“
Íslenskt menntakerfi stendur á tímamótum og við sem samfélag verðum að taka höndum saman. Störf framtíðarinnar munu byggjast á samvinnu, hugviti og sköpun og til að undirbúa börnin sem best til þátttöku í síbreytilegu tæknisamfélagi þarf skólastarfið að vera í stöðugri þróun. Því skorum við á bæjaryfirvöld í samvinnu við allt skólasamfélagið að móta heildstæða menntastefnu til framtíðar þar sem markmiðið er að skólar í Mosfellsbæ verði í fremstu röð. Framsækna stefnu sem fylgja þarf vel eftir og tryggja að dagi ekki uppi sem falleg orð á blaði.
Hópur áhugasamra foreldra barna í Varmárskóla um menntamál

F.h. hönd áhugasamra foreldra barna í Varmárskóla um menntamál:
Aníta Gísladóttir, Ágúst Guðmundsson, Elfa Haraldsdóttir, Erla Birgisdóttir, Ólafur Guðnason og Rakel Baldursdóttir