Líkamsrækt fyrir lífið

Heilsumolar_Gaua_21feb

Ég sé nánast á hverjum degi auglýsingar um líkamsrækt. Flestar snúast um að fylgja ákveðnu æfingaprógrammi í stuttan tíma til þess að líta út eins og rómverskt goð. Auðvelt. Gera ákveðnar æfingar í nokkrar vikur til að missa öll aukakíló og bæta á sig 10–20 kg af vöðvum. Þetta eru grípandi auglýsingar og freistandi að stökkva á tilboðin. En innst inni vitum við öll að þetta er ekki hægt, það verður enginn að rómversku goði á nokkrum vikum. Jákvæðara og uppbyggilegra til styttri og lengri tíma er að hugsa um líkamsrækt sem leið til þess að líða betur – andlega og líkamlega og til þess að fá meira út úr því sem maður vill gera í lífinu. Vera í standi til þess að gera skemmtilega hluti sem krefjast þess að maður sé í góðu líkamlegu ásigkomulagi.

Ég hef verið að hugsa talsvert um þetta undanfarið. Við fjölskyldan og margir úr æfingahópnum okkar í Mosfellsbæ höfum verið að upplifa góðar stundir í gegnum ýmis konar hreyfingu. Við höfum tekið þátt í Spartanhlaupum – krefjandi en mjög skemmtileg hlaup þar sem þarf að nota styrk, úthald, liðleika og samhæfingu til þess að komast í gegnum ýmsar þrautir. Margir hafa verið að fara í skíðaferðir. Margir stunda fjallgöngur. Við fjölskyldan erum núna að læra á brimbretti.

Það sem tengir þetta saman er sá góði grunnur sem reglulegar líkamsæfingar hafa fært okkur. Það er auðveldara og miklu skemmtilegra að fara á skíði og brimbretti, í fjallgöngur og aðra hressandi og gefandi útiveru ef maður góðan alhliða styrk, góða samhæfingu og gott úthald. Maður er fljótari að læra nýja tækni, getur skíðað/hreyft sig lengur og er fljótari að jafna sig á eftir. Gleymum rómversku goðunum og þeirra fölsku skyndilausnum, einbeitum okkur frekar að stunda holla og góða líkamsrækt, reglulega, allt árið um kring. Það býr til góðan grunn fyrir lífið.

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 21. febrúar 2019