Kvenfélagið færir Hömrum gjafir

hamrargjafir

Kvenfélag Mosfellsbæjar færði hjúkrunarheimilinu Hömrum góðar gjafir í kringum hátíðirnar.
Fyrir jól fékk heimilið tvo kolla á hjólum sem auðvelda starfsfólki vinnu sína og nokkur snúningslök. Eftir áramót færði félagið hjúkrunarheimilinu tvö vegleg sjónvörp sem leysa af hólmi eldri sjónvörp í setustofum Hamra.
Kvenfélag Mosfellsbæjar lætur sér annt um nærsamfélag sitt og hefur alla tíð frá stofnun þess árið 1909 stuðlað að bættum hag íbúanna á einn eða annan hátt. Sem dæmi um það má nefna að upp úr 1980 hófu kvenfélagskonur baráttu fyrir því að byggt yrði hjúkrunarheimili í Mosfellsbæ. Heimilið varð að veruleika rúmum 30 árum seinna og Kvenfélagið gerir sitt besta til að hlúa að þessu óskabarni sínu.
Gjafir sem þessar geta þó einungis orðið að veruleika með hjálp og hlýhug íbúa sveitarfélagsins sem kaupa kökur og handverk af Kvenfélaginu á jólabasarnum í desember ár hvert.
Kvenfélag Mosfellsbæjar færir Mosfellingum hjartans þakkir fyrir þann stuðning sem þeir hafa sýnt félaginu í gegnum tíðina.