Hentu

Guðjón Svansson gudjon@kettlebells.is

Guðjón Svansson
gudjon@kettlebells.is

Það er gott fyrir mann að hætta að gera það sem tekur frá manni orku og gera í staðinn það sem gefur manni orku. Því meiri orku sem maður hefur sjálfur, því meir getur maður gefið af sér. Hlutir geta líka tekið frá manni orku. Dýrir hlutir, fínir hlutir, hlutir með sögu, hlutir sem mann langar í, hlutir, hlutir sem mega ekki skemmast, hlutir sem mega ekki týnast. Dæmi: fíni spegillinn frá ömmu, iPhone 6 (bráðum 7), finnski vasinn, rétti hjólabúningurinn, dúnúlpan, fellihýsið og leðurstígvélin. Listinn er ótæmandi og mismunandi eftir lífstíl hvers og eins.

Alveg eins og það er frelsandi að losa sig úr orkutæmandi verkefnum er ótrúlega gott fyrir sálina að losa sig við alla þessa hluti. Hlutunum fylgja áhyggjur og óþarfa vesen. Áhyggjur skapa stress. Stress hefur bein áhrif á andlega og líkamlega heilsu. Því meira stress, því meira álag á líkamann. Þar af leiðandi er borðleggjandi að því færri hluti sem maður á og því færri hluti sem mann langar í, því betri er líkamleg heilsa manns. Mitt markmið, og ég er mjög nálægt því í dag, er að eiga svo fáa hluti sem mér er ekki sama um að ég geti pakkað þeim í stóran bakpoka. Það sem skiptir mig máli er að vera með fjölskyldunni og öðru góðu fólki, gera það sem ég elska að gera og reyna að hvetja aðra til þess að bæta líf sitt, láta drauma rætast.

Ég skora á þig að taka til í dótinu þínu. Losa þig við alla orkukrefjandi hluti, líka stóra spegilinn sem þú erfðir frá ömmu, henni er pottþétt sama þótt þú leyfir öðrum að njóta hlutanna hennar. Prófaðu svo að gera lista yfir þá hluti sem þú myndir setja í 60 lítra bakpoka, þá fáu hluti sem virkilega skipta þig máli.
Áfram veginn!

Heilsumolar Gaua
Mosfellingur 1. október 2015