Hatrið mun sigra?

Margrét Lúthersdóttir

Margrét Lúthersdóttir

Hatur. Þetta orð heyrum við mikið um þessar mundir. Hatrið mun sigra. Hatari. Hatursorðræða.
Íslendingar hafa ekki farið varhluta af þeirri þróun sem hefur verið að eiga sér stað í nágrannalöndum okkar. Smátt og smátt verða fordómar og hatursorðræða í garð minnihluta- og jaðarhópa eins og innflytjenda, hælisleitenda, hópa sem deila stjórnmála-, lífs- og trúarskoðunum samofnir þjóðfélaginu okkar. Við hættum að gefa þeim gaum og rasistar bera þann titil jafnvel með stolti.
Eitt af hlutverkum Rauða krossins á Íslandi er að standa vörð um mannréttindi og mannlega reisn. Hluti grundvallarhugsjóna hreyfingarinnar byggist á þeirri einföldu reglu; mannúð, óhlutdrægni, hlutleysi, sjálfstæði. Mikilvægt er að vekja athygli á því hvernig hatursorðræða smeygir sér inn í innstu kima samfélagsins, jafnvel án þess að við veitum henni sérstakan gaum. Áður en við vitum af þykir ekkert tiltökumál að vera kallaður rasisti sem ber fyrir sig tjáningarfrelsi. En hvers virði er frelsið ef það nýtist ekki þeim sem standa höllum fæti í samfélaginu okkar?
Það er svo auðvelt og þægilegt að hugsa; við og hinir. Ég er ekki í þessum aðstæðum, þetta snertir mig ekki, en við erum öll mennsk. Það er okkar skylda að mæta öðrum manneskjum þar sem þær eru, gera ekki greinarmun á þeim eftir þjóðerni, uppruna, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum eða kynhneigð. Það er okkar skylda að veita jaðarsettum hópum samfélagins aðstoð og styðja þá við að koma undir sig fótunum á ný.
Það flýr enginn sitt heimaland án þess að hafa ríka ástæðu til. Ef þér og fjölskyldu þinni væri ekki stætt á Íslandi lengur, hvað myndirðu vilja varðveita af þínum menningararf á nýjum viðkomustað? Hverja myndirðu tala við? Hvernig myndi þér líða?
Áður en við berum fyrir okkur tjáningarfrelsið. Áður en við leiðum hatursorðræðuna hjá okkur. Áður en við reynum að hundsa það sem erfitt er. Hugsum um hvers virði tjáningafrelsið er, hvers virði þægindin eru, ef við getum ekki staðið vörð um mannréttindi þeirra sem verst standa.
Við verðum að láta gjörðir fylgja orðum og sýna þeim sem verst standa að okkur er ekki sama. Við erum tilbúin til að standa saman gegn hatrinu, gegn fordómum og gegn fáfræðinni. Við erum tilbúin að fræða.
Því hatrið mun ekki sigra.

Margrét Lúthersdóttir
Deildarstýra Rauða krossins í Mosfellsbæ